Innlent

Líklegt að fyrsti landnámsskáli á Austurlandi finnist

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Stöðvarfjörður er talinn geyma landnámsbæ sem freista á að draga fram í dagsljósið.
Stöðvarfjörður er talinn geyma landnámsbæ sem freista á að draga fram í dagsljósið. Mynd/PéturSörensson
„Fornleifafræðingur hefur gert forkönnun á svæðinu sem leiðir til þess að mögulega er hægt að finna fyrsta landnámsskála sem byggður var á Austurlandi,“ segir Gunnar Jónsson, bæjarritari Fjarðabyggðar.

Fyrirhugað er að fara í fornleifagröft við bæinn Stöð í Stöðvarfirði til þess að kanna hvort um landnámsbústað geti verið að ræða í því landi. Undirbúningur að rannsókn á fornleifum stendur nú yfir.

„Upphaflega kom þetta upp þegar menn voru að skoða mögulegar línulagnir á svæðinu og það komu upp vísbendingar um að þarna gætu verið fornminjar af einhverju tagi,“ segir Gunnar.

Bæjarráð Fjarðabyggðar samþykkti á mánudaginn að ábyrgjast forvarnir á þeim gripum sem þar kunna að finnast í tveimur rannsóknarholum sem fyrirhugað er að taka í nóvember 2015. Þá verður þeim komið í vörslu hjá Þjóðminjasafni Íslands eins og lög gera ráð fyrir.

„Líkur til þess að landnámsbústaður sé þarna eru taldar mjög góðar og rannsóknir benda til þess. Fyrsta skrefið hjá okkur er að bæjarfélagið ábyrgist forvörslu muna og er það undirbúningsferli nú í gangi áður en leitin hefst,“ segir Gunnar Jónsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×