Erlent

Rússar segja það ekki lykilatriði að Assad haldi völdum

Samúel Karl Ólason skrifar
Assad og Pútin funduðu í síðasta mánuði.
Assad og Pútin funduðu í síðasta mánuði. Vísir/EPA
Það er ekki lykilatriði að Bashar al-Assad, forseti Sýrlands haldi völdum sínum. Þetta sagði talskona utanríkisráðuneytis Rússlands í dag. Fyrr í dag sagði aðstoðarutanríkisráðherra landsins, Mikhail Bogdanov, að til stæði að halda viðræður í Moskvu á milli sýrlenskra embættismanna og uppreisnarleiðtoga.

Samkvæmt Tass fréttaveitunni, sem er rekin af yfirvöldum í Rússlandi, stendur til að bjóða 38 fulltrúum uppreisnarinnar til Moskvu. Maria Zakharova, talskona utanríkisráðuneytisins, sagði að vestrænir fjölmiðlar hefðu reynt að láta það líta út eins og Rússar vildu halda Assad við stjórntaumana í Sýrlandi. Svo væri raunin þó ekki.

„Rússneska hliðin hefur alltaf verið sú að íbúar Sýrlands ættu að ákveða framtíð fullvalda Sýrlands.“

Hún sagði fjölmiðla hafa átt við yfirlýsingar yfirvalda í Moskvu til að láta líta út fyrir að Rússar vildu að Assad yrði að vera áfram forseti.

Rússar hófu loftárásir í Sýrlandi í september sem þeir sögðu að beindist gegn hryðjuverkahópum í Sýrlandi og ISIS. Vestrænir embættismenn og forsvarsmenn NATO hafa hins vegar þvertekið fyrir það og hafa sagt að loftárásir Rússa hafi beinst gegn uppreisnarhópum og Íslamistum, en ekki Íslamska ríkinu.


Tengdar fréttir

Aukin áhersla á frið og uppreisnarhópa

Bandaríkjamenn segjast ætla að auka áhersluna á friðsamlega lausn á stríðinu í Sýrlandi um leið og þeir hafa lýst því yfir að stuðningur við hófsöm uppreisnaröfl í landinu verði einnig aukinn.

Stórveldin funda vegna Sýrlands

Í fyrsta sinn sem fulltrúar þeirra ríkja sem styðja hópana sem takast á í Sýrlandi hittast til að ræða málin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×