Innlent

Dæmd í fangelsi fyrir rekstur á spilavíti í Skeifunni

Kolbeinn Tumi Daðason og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Þríeykið var meðal annars ákært fyrir rekstur á spilavítinu og peningaþvætti.
Þríeykið var meðal annars ákært fyrir rekstur á spilavítinu og peningaþvætti. vísir/anton
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í morgun tvo karlmenn og eina konu til refsingar fyrir að reka spilavítið Poker and Play í Skeifunni frá árinu 2010 til 2012.

Annar maðurinn var dæmdur í 12 mánaða fangelsi en þar af voru níu mánuðir á skilorði til tveggja ára. Hinn maðurinn og konan fengu níu mánaða fangelsisdóm, þar af eru sex skilorði til tveggja ára.

Öll voru þau dæmd til að greiða málsvarnarlaun verjenda sinna auk þess sem peningar að upphæð 551.500 krónur voru gerðir upptækir. Þá voru jafnframt spilapeningar, spilaborð og spilastokkar gerðir upptækir.

Auk rekstursins á spilavítinu var þríeykið ákært fyrir peningaþvætti með því að hafa tekið við, nýtt eða aflað sér ávinnings að fjárhæð 171 milljón króna, með því að hafa rekið fjárhættuspil í atvinnuskyni og sér til ávinnings komið öðrum til þátttöku í þeim.

Ákærðu sögðu að um áhugamannafélag hafi verið að ræða sem ekki hefði haft hagnað af fjárhættuspilinu sem þar hafi verið stundað. Vitni sem kom að stofnun félagsins vottaði fyrir það og sagði staðinn einungis hafa verið rekinn af frjálsum framlögum félagsmanna. Þá hafi allir stundað spilið af fúsum og frjálsum vilja.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.


Tengdar fréttir

"Hér var um að ræða áhugamannafélag um spil“

Spilavítið sem lögreglan lokaði í fyrradag auglýsti starfsemi sína víða á netinu og innheimti samkvæmt þeim svokallað pottagjald fyrir pókerspil. Lögmaður eins af sakborningunum í málinu segir enga ólöglega starfsemi hafa átt sér stað í húsnæðinu heldur einungis spilamennska áhugamanna fjármögnuð með frjálsum framlögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×