Handbolti

Ólafur Bjarki skoraði fjögur mörk í nýliðaslag

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ólafur Bjarki Ragnarsson.
Ólafur Bjarki Ragnarsson. vísir/getty
Ólafur Bjarki Ragnarsson og félagar hans í Eisenach töpuðu fyrir Leipzig á útivelli, 36-31, í nýliðslag í þýsku 1. deildinni í handbolta í dag.

Leipzig var í góðum málum eftir fyrri hálfleikinn og hafði þá sjö marka forskot, 19-12, Heimamenn gáfu ekkert eftir í síðari hálfleik og innbyrtu mikilvægan sigur.

Ólafur Bjarki skoraði fjögur mörk fyrir gestina í Eisenach sem er með fimm stig í 14. sæti eftir tólf umferðir. Leipzig er nú með tólf stig í tíunda sæti.

Geir Sveinsson og lærisveinar hans í Magdeburg töpuðu einnig í dag. Þeir þurftu að játa sig sigraða gegn stórliði Flensburg á útivelli, 33-30, eftir að vera 15-14 undir í hálfleik.

Daninn Michael Damgaard var markahæstur hjá Magdeburg með átta mörk en hornamaðurinn snjalli hjá Flensburg, Anders Eggert, var markahæstur allra á vellinum með tíu mörk.

Magdeburg, sem Geir stýrði í Evrópukeppni á sínu fyrsta tímabili í fyrra, er í smá basli í byrjun tímabils en liðið er í níunda sæti með tólf stig eftir tólf leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×