Fótbolti

Þýsku og frönsku landsliðsmennirnir eyddu nóttinni saman á Stade de France

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Þýskalands fyrir leikinn.
Leikmenn Þýskalands fyrir leikinn. Vísir/Getty
Vináttulandsleikur Frakka og Þjóðverja lenti í miðju hryðjuverkaárásanna í París á föstudagskvöldið og Bild sagði frá því að leikmenn beggja lið hafi ekki yfirgefið Stade de France leikvanginn fyrr en morguninn eftir.

Franska landsliðið er nú komið til Englands þar sem liðið mætir heimamönnum í vináttulandsleik á Wembley í kvöld.

Sprengjur sprungu fyrir utan Stade de France leikvanginn á meðan leik Frakka og Þjóðverja stóð á föstudagskvöldið og franski forsetinn yfirgaf völlinn strax á eftir.

Eftir leikinn var mikil geðshræring meðal áhorfenda þegar þeir fréttu að fleiri voðaverkum út um alla París og stór hluti þeirra þorði ekki að yfirgefa leikvanginn. Áhorfendurnir voru þó látnir yfirgefa leikvanginn á endanum.

Þýsku landsliðsmennirnir voru hinsvegar strandaglópar á leikvanginum þar sem að það hafi komið sprengjuhótun inn á hótelið þeirra.  Þjóðverjar ákváðu að taka enga áhættu með heimsmeistaraliðið sitt og því var niðurstaðan að þýsku leikmennirnir myndu gista þessa ógeðfelldu nótt á Stade de France.

Um leið og leikmenn franska liðsins fréttu af aðstöðu þýsku leikmannanna þá ákváðu þeir að vera líka yfir nóttina á Stade de France í stað þess að fara til sín heima.  Bild segir að 60 manns hafi verið samankomnir í einu herbergi og í boði hafi bara verið pulsur og samlokur. Oliver Bierhoff, liðsstjóri þýska landsliðsins, sagði í samtali við Bild að leikmennirnir hafi verið mjög hræddir.

Þegar leið á kvöldið og nóttina bárust frekari fréttir af því hvað hafði gerst, bæði fyrir utan völlinn sem og á veitingastöðunum og í Bataclan-leikhúsinu. Enginn leikmannanna gat sofið og mikil sorg og hræðsla var meðal allra sem voru þessa nótt á Stade de France.

Klukkan korter yfir tvö var það látið líta svo út að þýska landsliðið væri á leið í burt í litlum rútum en þær voru í raun tómar og fóru bara á hótel þýska liðsins til að sækja töskur þeirra. Leikmennirnir eyddu allri nóttinni á  Stade de France og fóru ekki af stað fyrr en klukkan sjö morguninn eftir.

Þýsku leikmennirnir spila í kvöld við Holland í vináttulandsleik í Hannover.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×