Körfubolti

Tveir Grindvíkingar heltust úr lestinni hjá kvennalandsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Petrúnella Skúladóttir var eini leikmaður landsliðshópsins sem var yfir þrítugu.
Petrúnella Skúladóttir var eini leikmaður landsliðshópsins sem var yfir þrítugu. Vísir/Þórdís Inga
Tveir leikmenn geta ekki tekið þátt í fyrstu leikjum íslenska kvennalandsliðsins í körfubolta í undankeppni EM 2017 en þær voru hluti af fimmtán manna upprunalega æfingahópi Ívars Ásgrímssonar fyrir leiki við Ungverja og Slóvaka.

KKÍ segir frá því á heimasíðu sinni í dag að Grindvíkingarnir Björg Guðrún Einarsdóttir og Petrúnella Skúladóttir hafi orðið að segja sig úr hópnum vegna meiðsla. Petrúnella hefur ekki verið með í síðustu leikjum Grindavíkur og Björg Guðrún Einarsdóttir var heldur ekki með á móti Val í gær.

Petrúnella Skúladóttir hefur fengið tvö höfuðhögg á stuttum tíma og má ekki spila af þeim sökum en Björg Guðrún er að glíma við meiðsli á mjöðm.

Grindavíkurstelpunum tókst að vinna 66-63 sigur á Val þrátt fyrir að vera án þeirra Petrúnellu og Björgu en það var landsliðskonan Sigrún Sjöfn Ámunadóttir sem skoraði sigurkörfuna í leiknum.

Íslenska kvennalandsliðið hóf æfingar í morgun og verða við æfingar næstu daga. Liðið æfir aftur í kvöld og áfram tvisvar á dag fram að brottför á fimmtudaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×