Skoðun

Fiðlan hans Björns

Bjarki Bjarnason skrifar
Grein þessari fylgir ljósmynd af fiðlu Björns Ólafssonar en hann var í fyrsta hópnum sem útskrifaðist frá Tónlistarskólanum í Reykjavík, árið 1934. Björn var afburða listamaður, hans beið mikill frami erlendis þegar örlögin gripu í taumana og hann vann allan sinn starfsaldur á Íslandi.

Fiðlan hans Björns er einn af þeim merkisgripum sem varðveittir eru á Tónlistarsafni Íslands í Kópavogi sem tók til starfa árið 2009, eftir að samningur hafði verið undirritaður milli bæjarins og ráðuneytis menntamála. Innan veggja þess hafa Bjarki Sveinbjörnsson og Jón Hrólfur Sigurjónsson unnið einstakt frumkvöðlastarf á sviði íslenskrar tónlistarsögu með söfnun heimilda og gripa, móttöku gesta og sýningarhaldi; meðal annars hefur Tónlistarsafnið byggt upp gagnagrunn um íslenskan tónlistar- og menningararf, ismus.is, í samvinnu við Árnastofnun.

En nú kveður skyndilega við nýjan tón: Kópavogsbær hyggst leggja niður annað stöðugildi safnsins og húsakosturinn fer sömu leið. Þar með verður Tónlistarsafn Íslands í raun og veru lagt niður, með eitt stöðugildi og enga sýningaraðstöðu eru dagar þess taldir. Hvað skyldi verða um fiðluna hans Björns ef þessar undarlegu hugmyndir verða að veruleika?

Það er brýnt að þessum slysalegu áformum verði afstýrt og benda má á að nú fer fram undirskriftasöfnun gegn þeim á Netinu. Nauðsynlegt er að ríkisvaldið og Kópavogsbær taki höndum saman við að leysa málið; framtíð Tónlistarsafns Íslands er ekki einkamál ríkis og Kópavogsbæjar, hún snertir menningararf og sögu okkar allra.




Skoðun

Sjá meira


×