Erlent

Fönguðu skelfilega meðferð á svínum með falinni myndavél

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Það að dýrin séu brytjuð niður meðan þau eru lifandi virðist ekki vera mikið tiltökumál.
Það að dýrin séu brytjuð niður meðan þau eru lifandi virðist ekki vera mikið tiltökumál. mynd/youtube
Myndband sem tekið var upp á laun í bandarísku sláturhúsi hefur vakið mikla reiði þar í landi. Myndbandið sýnir vægast sagt ömurlega meðferð á svínum rétt áður en þeim er fargað. Fjallað erum málið á The Washington Post.

Myndbandið sýnir meðal annars hvernig krókum er komið fyrir í kjafti dýranna og þau dregin áfram á þann hátt. Einnig má sjá starfsmenn berja dýrin. Lögum samkvæmt verða dýr að vera meðvitundarlaus áður en þau er skorin á háls en glöggt má greina í myndbandinu að alls ekki er farið eftir þeim reglum.

„Þetta var klárlega ennþá á lífi,“ heyrist einn starfsmaðurinn segja og annar hefur orð á því að ef eftirlitsmenn vissu hvað færi þarna fram yrði verksmiðjunni lokað hið snarasta.

„Meðferðin sem sést í myndbandinu er ógeðsleg og algjörlega óafsakanlegt. Ef okkur tekst að sannreyna að þetta hafi sannarlega átt sér stað munum við rannsaka málið og gera viðeigandi ráðstafanir,“ segir Adam Tarr, talsmaður landbúnaðarráðuneytis landsins. Hann gat ekki gefið nákvæmari svör þar sem rannsókn er enn á frumstigi.

Myndbandið í heild sinni er 97 mínútur en það var tekið upp af starfsmanni Compassion Over Killing en það eru dýraverndarsamtök sem starfa í Bandaríkjunum. Stutta útgáfu af því má finna hér að neðan en ritstjórn Vísis varar við því myndefni sem þar birtist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×