Erlent

Rússar komnir með plan fyrir Sýrland

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Rússlandsforseti fellur frá afdráttarlausum stuðningi við Assad.
Rússlandsforseti fellur frá afdráttarlausum stuðningi við Assad. vísir/epa
Rússar hafa gert áætlun um friðarferli í Sýrlandi, þar sem þeir falla frá afdráttarlausum stuðningi við Bash­ar al Assad Sýrlandsforseta.

Þeir vilja að Sýrlendingar taki sér átján mánuði til að semja nýja stjórnarskrá og síðan verði efnt til forseta- og þingkosninga. Ekki er annað að sjá en að Assad eigi að fá að bjóða sig fram.

Andstæðingar Assads segja þó ekkert nýtt í tillögunum og halda fast við þá kröfu að eini grundvöllurinn að friði sé afsögn Assads.

Reuters-fréttastofan komst yfir eintak af þessari áætlun, sem hefur gengið á milli manna hjá Sameinuðu þjóðunum.

Stríðið í Sýrlandi hefur nú staðið yfir í meira en fjögur ár, kostað hundruð þúsunda lífið og hrakið milljónir manna á flótta.

Fulltrúar margra ríkja koma saman í Vínarborg á laugardaginn til að ræða mögulegar lausnir á þessu ástandi.

Rússar hófu í haust loftárásir á uppreisnarmenn í Sýrlandi, en hafa verið gagnrýndir fyrir að beina árásum sínum ekki aðeins að Íslamska ríkinu heldur einnig hófsamari uppreisnarmönnum sem notið hafa stuðnings Bandaríkjanna og fleiri ríkja á Vesturlöndum og í Mið-Austurlöndum.

Bandaríkin hafa brugðist við með því að skipta um áherslur, beina stuðningi sínum annað og hyggjast senda tugi bandarískra hermanna til landsins.

Hugmyndir Rússa ganga út á það að hálft annað ár verði tekið í að breyta stjórnskipun landsins, þannig að ný stjórnskipun geti tryggt „varanlegt öryggi og sanngjarnt jafnvægi hagsmuna, réttinda og skyldna allra þjóðernis- og trúarhópa í valdakerfum og ríkisstofnunum“.

Komið verði á fót stjórnlaganefnd með fulltrúum „úr öllu litrófi sýrlenska samfélagsins, og þar á meðal úr stjórnarandstöðunni innanlands jafnt sem erlendis“. Formennskan komi í hlut einhvers sem allir þátttakendur fallast á.

Síðan verði drög að nýrri stjórnarskrá borin undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Eftir það verði efnt til forsetakosninga.

Frestað verði þingkosningum, sem halda átti næsta vor. Þess í stað verði þær haldnar jafnhliða forsetakosningum samkvæmt nýrri stjórnarskrá, þegar hún liggur fyrir.

Samkomulag verði um að sá forseti, sem kjör hlýtur, verði yfirmaður heraflans og hafi eftirlit með bæði sérsveitum hersins og utanríkisstefnu landsins.

Þá vilja Rússar að alþjóðlegur stuðningshópur verði settur á laggirnar til að styðja Sýrlendinga í gegnum breytingarnar. Í þessum hópi verði Rússar, Kínverjar, Bandaríkjamenn, Frakkar, Þjóðverjar, Sádi-Arabar, Tyrkir, Íranir, Egyptar og fleiri þjóðir í Mið-Austurlöndum, ásamt fulltrúa Sameinuðu þjóðanna, Arababandalagsins, Samvinnustofnunar íslamskra ríkja og Evrópusambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×