Erlent

Fékk blóm í stað sektar: Var á leið með móður sína í líknarmeðferð

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Konan var afar þakklát fyrir hlýju lögreglumannsins.
Konan var afar þakklát fyrir hlýju lögreglumannsins. vísir/getty
Lögreglukona í Massachusets-ríki í Bandaríkjunum hefur verið heiðruð í kjölfar þess að hún sendi konu blóm í stað þess að sekta hana fyrir of hraðan akstur. Konan hafði ekið á 65 kílómetra hraða á klukkustund á svæði þar sem hámarkshraðinn var 50. Sagt var frá málinu á boston.com.

Laganna vörður, Ashley Catato, stöðvaði ökumanninn, Robin Sutherland, og spurði hana hvort hún vissi hví verið væri að stöðva hana. „Var ég að fara of hratt? Það hefur ekki gerst síðan 1985,“ sagði ökumaðurinn. Lögreglumaðurinn hló að henni og sagði að hún myndi sleppa í þetta skipti með áminningu.

Þegar Ashley kom aftur til Robin, eftir stutt stopp í lögreglubílnum, var hún grátandi. Henni þóttu það nú fullsterk viðbrögð yfir því að fá aðvörun en ástæðan fyrir grátnum var önnur. Robin var á leið á sjúkrahús að fylgja níræðri móður sinni í líknarmeðferð eftir að krabbameinsmerðferð var árangurslaus.

Þegar Ashley kom heim að loknum vinnudegi ákvað hún að senda Robin blóm. Í korti sem fylgdi blómunum stóð að henni þætti leitt að heyra hvernig komið væri fyrir móður hennar. Hún vonaði að því fylgdi einhver huggun að vita að hún hefði lifað löngu lífi og að hún myndi lifa áfram í huga hennar og hjarta. Undir þetta ritaði hún „lögregluþjónninn sem stöðvaði þig í morgun.“

„Stundum í vinnunni þá langar mig að faðma fólk en geri það ekki af því ég er hrædd um að því þyki það skrítið,“ segir Catato um það hví hún ákvað að senda Sutherland blómin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×