Erlent

Milljónir í hættu vegna áhrifa El Niño

Bjarki Ármannsson skrifar
Í Suður-Afríku hefur búfénaður hefur drepist úr þorsta vegna þurrkanna.
Í Suður-Afríku hefur búfénaður hefur drepist úr þorsta vegna þurrkanna. Vísir/EPA
Um ellefu milljónir barna í suður- og austurhluta Afríku eiga nú í hættu á að svelta eða verða sjúkdómum að bráð vegna veðurfyrirbrigðisins El Niño.

Þetta er mat samtakanna UNICEF, sem segja í tilkynningu að El Niñohafi þegar valdið versta þurrki í Eþíópíu í þrjátíu ár. Þá sé nágrannaríkið Sómalía sömuleiðis í hættu.

El Niño er veðurfyrirbrigði sem tengist sjávarhitafrávikum í Kyrrahafinu og hefur áhrif á veðurfar víða um heim. Sá sem gengur yfir nú í ár er óvenju öflugur og hefur þegar ollið flóðum, þurrkum og fellibylum í Afríku. Samkvæmt spám mun El Niño verða enn öflugri næstu mánuði.

UNICEF segir að áhrifanna gæti víða í álfunni, allt frá Suður-Afríku þar sem búfénaður hefur drepist úr þorsta vegna þurrkanna og yfirvöld hafa sumstaðar þurft að takmarka vatnsneyslu íbúa, til Eþíópíu þar sem rúmlega átta milljónir manna eiga í hættu á að fá ekki nægan mat.

Yfirvöld í Eþíópíu segjast þó eiga matarbirgðir sem þau sendi til þeirra svæða sem verst hafi orðið úti í þurrkunum. Verið sé að vinna hörðum höndum að því að sjá til þess að enginn deyi úr hungri vegna El Niño í ár.

Tengdar fréttir

2015 líklega heitasta ár frá upphafi mælinga

Vegna áhrifa veðurfyrirbærisins El Niño, auk stórfelldrar losunar mannsins á gróðurhúsalofttegundum, er nær öruggt að árið tvö þúsund og fimmtán verður lang hlýjasta árið frá upphafi mælinga.

Hlýnun komin í eins stigs markið

Breska veðurstofan fullyrðir að hitastigið árið 2015 verði meira en einu stigi yfir meðaltalshita áranna 1850-1990. Þar með er eins stigs hlýnun í fyrsta sinn náð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×