Fótbolti

Vill fá 40 þjóða HM

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Gianni Infantino.
Gianni Infantino. vísir/getty
Forsetaframbjóðandinn, Gianni Infantino, vill gera róttækar breytingar á HM verði hann kosinn forseti FIFA í febrúar á næsta ári.

Infantino er framkvæmdastjóri UEFA og stökk óvænt í forsetaslaginn eftir að forseti UEFA, Michel Platini, var settur í 90 daga bann. Verði Platini síðan refsað af FIFA mun hann ekki geta boðið sig fram í forsetakjörinu.

Infantino hefur unnið í skugga Platini í mörg ár og segist ekki ætla að berjast gegn Platini fari svo að hann geti boðið sig fram. Hann muni þá draga framboð sitt til baka.

Framkvæmdastjórinn vill stækka HM um átta lið eða upp í 40.

„Það hefur verið góð reynsla af því að stækka EM. Þjóðir sem hafa aldrei komist á stórmót eru komin inn og fastagestir hafa verið að sitja eftir," sagði Infantino.

„Þetta fyrirkomulag breytti algjörlega keppninni. Það kom meiri ákafi í þjóðirnar. Ef mönnum er alvara með að þróa fótboltann þá verður að stækka HM."

Það er ljóst að það yrði ekki hægt fyrir HM 2018 þar sem undankeppni þar er víða hafin. Svo er þegar búið að ákveða að troða 64 leikjum á 28 daga á HM 2022 í Katar.

2026 virðist því vera árið þar sem hægt yrði að stækka HM ef hugmynd Infantino hlýtur hljómgrunn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×