Erlent

Maður lést í innkaupakerruslysi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Innkaupakerrur geta verið stórhættuleg drápstól séu þær ekki rétt meðhöndlaðar.
Innkaupakerrur geta verið stórhættuleg drápstól séu þær ekki rétt meðhöndlaðar. Vísir/Getty
Sænskur maður lést og annar slasaðist alvarlega í innkaupakerruslysi í Ástralíu.

Lögreglan í Sidney segir að mennirnir, báðir 28 ára gamlir, hafi rekist á kerruna á gangi um bæinn, annar þeirra hafi hoppað um borð á meðan hinn reyndi að stýra ferðinni er þeir renndu sér niður nokkuð bratta brekku.

Talið er að kerran hafi náð allt að 80 kílómetra hraða áður en hún lenti framan á bíl sem kom á móti.

„Við vitum öll hvernig innkaupakerrur eru og það er mjög erfitt að stjórna þeim. Það að renna sér niður brekku í innkaupakerru hlýtur að vera eitt það hættulegasta sem hægt er að gera,“ sagði Gavin Dengate hjá lögreglunni í Sidney.

Maðurinn sem var um borð í kerrunni kastaðist úr henni og lenti á kantstein. Sá sem komst lífs var nýkominn til Ástralíu. Hann liggur alvarlega slasaður á spítala og gæti þurft að svara til saka fyrir athæfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×