Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunin, WADA, segir nauðsynlegt að banna Rússum þátttöku í frjálsum íþróttum vegna þess hve mikið sé um notkun ólöglegra lyfja.
Nefndin rannsakaði ásakanir og grun um víðtæka lyfjamisnotkun meðal rússneskra íþróttamanna, yfirhylmingu með henni og þvinganir íþróttamanna til að taka þátt í slíku.
Nefndin segir að með þessu framferði hafi Rússar unnið skemmdarverk á Ólympíuleikunum í London árið 2012.
Dick Pound, formaður rannsóknarnefndar WADA, segir engu líkara en Rússland haldi uppi ríkisstuddri lyfjamisnotkun íþróttamanna.
Stjórnvöld hafi ítrekað látið lyfjamisnotkun afskiptalausa, og meira að segja virðist Alþjóðafrjálsíþróttasambandið flækt í málið, að sögn Pounds.
Pound segir þó að núverandi forseti Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, Coe lávarður, njóti fulls stuðnings síns til starfsins. Honum sé treystandi til að taka á þessu.
Coe sendi í gær frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagði upplýsingarnar í skýrslunni frá WADA vekja miklar áhyggjur. Hann muni reyna að afla stuðnings frá stjórn sambandsins við refsiaðgerðir gegn Rússum, þar á meðal hugsanlega brottvísun.

