Handbolti

Átta marka sigur Barcelona í Danmörku

Anton Ingi Leifsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson skoraði eitt mark í dag.
Guðjón Valur Sigurðsson skoraði eitt mark í dag. vísir/getty

Frábær síðari hálfleikur tryggði Barcelona sigur á KIF Kolding Köbenhavn í Meistaradeild Evrópu í handbolta í dag, en lokatölur 36-28. Barcelona því komið á topp B-riðils.

Liðin héldust í hendur í upphafi leiks og staðan var jöfn 7-7 eftir stundarfjórðung. Barcelona var svo skrefi á undan út allan hálfleikinn og Kiri Lazarov skoraði síðasta mark hálfleiksins. Staðan í hálfleik 16-15, Barcelona í vil.

Danirnir byrjuðu síðari hálfleikinn vel og jöfnuðu þeir í 19-19 eftir átta mínútna leik í síðari hálfleik. Á næstu tólf mínútum skoruðu Barcelona ellefu mörk gegn einungis fjórum frá Dönunum og eftirleikurinn auðveldur.

Þeir sigldu svo sigrinum nokkuð örugglega heim, en lokatölur urðu svo átta marka sigur Barcelona, 36-28.

Með sigrinum skaust Barcelona á topp riðilsins, en þeir eru stigi á undan Rhein-Neckar Löwen. KIF er á botni riðilsins með tvö stig.

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði eitt mark úr fjórum skotum, en Wael Jallouz var markahæstur með níu mörk. Hjá heimamönnum var Bo Spellerberg markahæstur með sjö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×