Erlent

Rússar hefja víðtækar efnahagsaðgerðir gegn Tyrkjum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Vladimír Pútín
Vladimír Pútín vísir/getty

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur undirritað tilskipun sem kveður á um víðtækar efnahagsaðgerðir Rússland gegn Tyrklandi. Aðgerðirnar fela í sér viðbrögð við því að Tyrkir skutu niður rússneska herþotu sem þeir töldu vera á ferð í lofthelgi sinni. Þetta kemur fram á vef BBC.

Tilskipunin felur í sér að Rússar munu ekki flytja inn vörur frá Tyrklandi auk þess að tyrkneskum fyrirtækjum verður meinað að halda úti starfsemi í landinu. Þá verður Tyrkjum meinað að starfa á rússneskri grundu. Þá er þeim tilmælum beint til ferðaskrifstofa í landinu að selja ekki ferðir til Tyrklands.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur neitað að biðjast opinberlega afsökunar á því að herþotan hafi verið skotin niður. Fyrr í dag sagði Erdogan hins vegar að hann væri afar leiður yfir því hvernig fór. Tveir flugmenn voru um borð og komst annar þeir af á lífi.

Ljóst er að aðgerðirnar gætu haft talsverðar afleiðingar í för með sér fyrir Tyrkland en sem stendur er Rússland næst stærsti innflytjandi landsins. Þá heimsækja hátt í þrjár milljónir rússneskra ferðamanna Tyrkland ár hvert.

Samkvæmt upplýsingum frá Kreml þá búa og starfa um 90.000 Tyrkir í Rússlandi. Séu fjölskyldumeðlimir þeirra teknir með í reikninginn er líklegt að ríflega 200.000 Tyrkir dveljist í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×