Handbolti

Aron og félagar rúlluðu yfir PSG

Anton Ingi Leifsson skrifar
Aron Pálmarsson gat leyft sér að taka þetta fagn í dag. Frábær sigur hjá PSG.
Aron Pálmarsson gat leyft sér að taka þetta fagn í dag. Frábær sigur hjá PSG. vísir/epa

Aron Pálmarsson og félagar í Veszprém unnu frábæran sigur á PSG í Meistaradeild Evrópu í handbolta, en lokatölur urðu átta marka sigur Veszprém, 28-20. Staðan í hálfleik var 16-14, en með sigrinum fer Veszprém á topp riðilsins.

Heimamenn í Veszprém byrjuðu frábærlega og skoruðu þrjú fyrstu mörkin og voru komnir í 7-2 eftir átta mínútna leik. Þá tóku gestirnir frá Frakklandi leikhlé og komust hægt og rólega inn í leikinn.

Þegar stundarfjórðungur var liðinn var munurinn orðinn tvö mörk, 10-8, og þegar flautað var til hálfleiks var staðan 16-14.

Í síðari hálfleik héldu heimamenn uppteknum hætti og voru með góða forystu þegar stundafjórðungur var til leiksloka, en þeir voru þá fimm mörkum yfir, 21-16.

Þeir sigldu svo sigrinum örugglega heim og unnu að lokum átta marka stórsigur, 28-20, í toppslag í A-riðli. Veszprém komið á topp riðilsins með fimmtán stig, en PSG og Flensburg í öðru með fjórtán stig.

Aron Pálmarsson gerði fjögur mörk, en Momir Ilic lék á alls oddi og skoraði tíu mörk úr ellefu skotum. Hjá gestunum frá París var Daniel Narcisse markahæstur með fjögur mörk. Róbert Gunnarsson komst ekki á blað fyrir PSG.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×