Skoðun

Þjónustusamningar við heimilislækna – bætt þjónusta við almenning

Þórarinn Ingólfsson skrifar

Nánast allir Íslendingar og þar með taldir stjórnmálamenn hvar í flokki sem þeir standa eru sammála um að heilbrigðiskerfið skuli rekið af sameiginlegum sjóði landsmanna og allir skuli eiga jafnan rétt á góðri heilbrigðisþjónustu án tillits til efnahags. Þegar ríkið kaupir þessa þjónustu af læknum heyrast gjarnan raddir að nú sé verið að „einkavæða“ og um sé að ræða einhvers konar ójöfnuð. Það er alrangt. Öll kaup ríkisins eru með samningum sem tryggja öllum jafnan aðgang að þjónustunni.

Einhverra hluta vegna hafa heilbrigðisyfirvöld hingað til staðið á því fastar en fótunum að þjónusta heimilislækna skuli ekki vera keypt með samningum heldur skuli þeir ráðnir sem ríkisstarfsmenn stofnana ríkisins. Á þessu eru nokkrar undantekningar (Salastöð, Lágmúlastöð og 12 sjálfstætt starfandi heimilislæknar). Þegar litið er til ánægju sjúklinga, aðgengis og kostnaðar koma þessi rekstrarform vel út í samanburði.

Norræna leiðin

Þegar heilsugæslan er til umræðu er gjarnan litið til Norðurlanda en þar hafa þjónustusamningar við heimilislækna verið burðarásinn í heilbrigðisþjónustunni í mörg ár, fyrst og fremst í Noregi og Danmörku sem hafa áratuga góða reynslu af þessu fyrirkomulagi. Síðan 2009 hafa Svíar fetað sömu braut með því að opna fyrir þjónustusamninga og gefa kost á heilbrigðri samkeppni við opinberu heilsugæslustöðvarnar. Þjónusta heimilislækna í Noregi hefur í mörg ár verið efst á lista ánægjuvogar um opinbera þjónustu og almenn sátt verið um fyrirkomulagið. Mönnun batnaði verulega. Það tókst að bjóða öllum landsmönnum heimilislækni. Aðgengi batnaði og starfsánægja læknanna jókst. Mönnun í Danmörku er einnig góð og starfsánægja mikil og almenn ánægja almennings með kerfið.

Breytingarnar í Svíþjóð núna virðast einnig stefna í verulega betra aðgengi fólks að þjónustunni og meiri ánægju. Nýlegar kannanir þar sýna að ánægja fólks er meiri með einkareknu heilsugæslustöðvarnar í samanburði við þær ríkisreknu. Fjöldi lækna sem leggja fyrir sig heimilislækningar hefur þar tvöfaldast. Það er engin ástæða til annars en að það sama yrði uppi á teningnum hér á landi. Ámóta breytingar hér myndu stuðla að því að halda læknum í starfi, fá til starfa á nýjan leik þá sem hafa sagt skilið við heimilislækningar og auka áhuga ungs fólks á sérgreininni og að koma heim til starfa.

Umbætur heilbrigðisráðherra

Nú boðar heilbrigðisráðherra samræmda fjármögnun þessarar þjónustu sama hvert rekstrarformið er. Þessi áform sín kynnti hann í janúar 2014. Fjármagnið fylgi sjúklingnum og sá þjónustuaðili sem í raun er að sinna sjúklingnum fái rekstrarfjármuni samkvæmt því. Kröfulýsing hefur verið gerð sem á við um alla þá sem veita þessa þjónustu hvort sem er ríkið eða sjálfstætt starfandi læknar. Ráðherrann hefur sagt að innan skamms verði auglýstur til umsóknar, samkvæmt þessu fjármögnunarlíkani og kröfulýsingu, rekstur þriggja heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu. Hann stefnir að miðlægri skráningu allra landsmanna er þess óska hjá heimilislækni. Hann hefur sagt að samningar við stórfyrirtæki eða áhættufjárfesta um samband sjúklings og læknis eigi ekki rétt á sér.

Um er að ræða að mínu mati mestu umbætur í þessari grunnþjónustu í mörg ár ef vel tekst til. Að mínu mati ættu þessar umbætur að vera óumdeildar og þverpólítísk sátt að vera um þær. Aðgengi að heilsugæslu á að vera óheft. Það á ekki að vísa fólki frá þar á aðra óviðeigandi og dýrari þjónustu. Það er réttur fólks að hafa nafngreindan heimilislækni. Til þess að svo geti orðið þarf að fá fleiri heimilislækna til starfa og mennta fleiri.

Það gerum við með því að fara norrænu leiðina!




Skoðun

Sjá meira


×