Skoðun

Opið bréf til stjórna ríkis og sveitarfélaga

Guðni Gunnarsson skrifar

Ágæta fólk,

Ég á mér draum! Já ég á mér draum alveg eins Marteinn Lúther King átti sér draum.

Minn draumur fjallar kannski ekki um báráttu upp á líf og dauða,og þó, en hann fjallar um lífsviðurværi og virðingu. Hann er ósköp fallegur í einfaldleika sínum og er í stuttu máli svona:

„Ég geng um götur bæjarins rétt eins og hver annar virkur samfélagsþegn, auðmjúkur, nægjusamur og ánægður með mitt hlutskipti og hvað ég legg til samfélagsins. Ég fæ borgað fyrir vinnu mína sem myndlistarmaður, ekki bara fyrir að selja verkin mín (sem sumir vilja kaupa) heldur líka fyrir sýningar sem settar eru upp á vegum Listasafns Íslands, Listahátíðar í Reykjavík, Listasafns Reykjarvíkur, Hafnarborgar og Gerðarsafns. Ég fæ líka endrum og eins mannsæmandi laun, sem tæknilegur fagmaður í myndlist þegar ég tek þátt í því að setja upp sýningar í sömu húsum, rétt eins og rafvirkinn og smiðurinn sem vinna mér við hlið.“

Þetta er ekki draumur um gullát í Hong Kong og grillkjöt á hverju kvöldi. Hann er ekki frekur þessi draumur og ekkert vælubílamál, hann er fyrst fremst bara sanngjarn.

Flestum þykir það eðlilegt að leikstjóri sem vinnur verk fyrir Þjóðleikhúsið fái greitt fyrir það. Þeir fá, ef mér skjátlast ekki, 6 mánaða laun greidd fyrir hvert verk. Á hinn bóginn fær myndlistarmaður ekkert fyrir að sýna í þessum opinberu sölum sem ég taldi upp hér á undan.

Hvert ykkar væri til í að vinna skapandi starf, búa til myndlist og setja upp sýningar á eigin verkum í opinberum sýningarsölum og fá aldrei greitt fyrir það? Og hver væri svo til í að vinna verktakavinnu fyrir 3.200 kr. á tímann þess á milli, til að eiga fyrir salti í grautinn?

Hver ykkar er til í þetta? Hugsið ykkur um, ekki lengi samt, og réttið upp hönd ef svo er. Jafnvel þó að þið sitjið ein fyrir framan tölvuskjáinn.

Ef svo vill til að þið réttið upp hönd, leggið þið dæmið niður fyrir ykkur.

Þið gætuð jafnvel hellt ykkur mjólk í glas og fengið ykkur snúð með.

Svona er þetta: 3.200 kr. / 1 tími (jafnaðarkaup án orlofs). Skattur og önnur launatengdgjöld eru um 40%, sem gera um 1.900 kr. í vasann. Já þið lásuð rétt, 1.900 kr.

Þetta eru þau kaup og kjör sem bjóðast myndlistarfólki sem tekur að sér þá vinnu að taka niður og setja upp sýningar. Hér erum við að tala um vinnu sem felur ýmislegt í sér svo sem að setja saman og handleika verk sem kosta jafnvel hundruði milljóna króna. Ábyrgðin er mikil og krafan um þekkingu og reynslu er ófrávíkjanleg.

Verktakavinna er í eðli sínu þannig að menn hoppa inn í verkefni með stuttum fyrirvara. Hluti launanna er fyrir það að geta „hóað“ í fólk á nánast hvaða tíma sem er. Þetta vita allir. Hér er ekki verið að tala um föst laun með orlofi, 500 kr. í hádegismat í fínu mötuneyti, jólabónus og allt það. Það er ekki hægt að setja dæmið upp 1.900 x 8 x 20  = 304.000 kr. í vasann per mánuð „vertu feginn, þú ert með hærra kaup en þessi og hinn!“ Svo einfalt er það ekki.

Hvaða logík eða sanngirni er í því að meta vinnuframlag tæknilegs fagfólks í myndlist ómerkilegra en til dæmis vinnu rafvirkjans eða smiðsins sem kallaður er til við uppsetningu? Í öllum tilvikum er um að ræða fólk með reynslu og menntun til þess að leysa nauðsynleg verk af hendi svo hægt sé að opna sýningar.

Hér á landi er mjög sterk myndlistarsena, tugir sýninga eru opnaðar á ári hverju. Á bakvið þann styrk liggur ómetanlegt óeigingjarnt starf fjölda fólks sem að nánast alltaf gefur vinnu sína. Fólk sem vinnur af hugsjón um að hér eigi að vera blómlegt og ögrandi menningarlíf. Hér eru reknir sýningarstaðir á heimsmælikvarða eins og t.d. Kling og Bang þar sem rekstraraðilar hafa stundum fengið lámarksstyrki fyrir rekstri en vinna svo í sjálfboðavinnu.

Þetta á við allar skapandi listasenur á Íslandi. Hér vill fólk líka framsækið leikhús, dúndur kvikmyndir, dans, bækur og tónlist. Kröfurnar á listamenn eru heldur betur til staðar. Við vinnum vinnuna okkar vel og stöndum undir þeim.

Nú verða ráðamenn að fara vakna upp frá þessarri þjóðnýtingarstefnu og ranghugmyndum um að listamanninum sé hollast að lepja dauðann úr skel.

Það sem við gerum er alvöru auðlind. Það er hagfræðilega sannað. Afhverju er svona erfitt að viðurkenna það? Eru stjórnmálamenn virkilega svona hræddir við freka bitra kallinn eða frúnna sem froðufellir í hvert einasta skipti sem að listamannalaun eru veitt?

Er ekki kominn tími til þess að gefa svolítið í virðinguna og hugsa þetta rökrétt? Er það til of mikils ætlast?

Það er voða gaman að opna sýningu, heyra talað vel um sig og dreypa á hvítvíni, en það er bara ekki nóg, það lifir enginn á því.

Við erum fólk sem eigum börn, rekum heimili, borgum leigu og lán rétt eins og aðrir landsmenn. Við erum fólk sem vinnum mikið og flestir miklu meira en 100% vinnu.

Dagur Kári orðaði þetta vel um daginn „Þetta gengur ekki!“

Stjórnvöld verða að fara veita meiri fjármunum í þennan málaflokk og skilja að hver króna sem veitt er skilar sér margfalt til baka og þá erum við ekki bara að tala um peningahliðina. Myndlist er margbrotin auðlind sem gefur af sér svo miklu meira. Þetta vita líka allir.

Að lokum vil ég hvetja alla myndlistarmenn til þess að sýna samstöðu, það er lykilatriði í báráttu okkar. Ég hvet fólk til þess að taka ekki að sér vertakavinnu í söfnum fyrir 3.200 kr. á tímann og ég hvet fólk einnig til þess að sniðganga öll sýningaboð nema greitt sé fyrir samkvæmt taxta Sambands Íslenskra Myndlistarmanna.




Skoðun

Sjá meira


×