Erlent

Leitin heldur áfram í Belgíu

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Lögreglu- og hermenn fyrir utan aðallestarstöðina í Brussel í gær.
Lögreglu- og hermenn fyrir utan aðallestarstöðina í Brussel í gær. Fréttablaðið/EPA
Eins konar umsátursástand hefur ríkt í Brussel þrjá sólarhringa í röð. Almenningssamgöngur liggja niðri, skólar eru lokaðir og verslunarmiðstöðvar mannlausar.

Í gær voru fimm manns handteknir til viðbótar þeim 16, sem handteknir voru á sunnudag. Ekkert bólar þó á Salah Abdeslam, 26 ára gömlum Frakka, sem talinn er hafa tekið þátt í árásunum í París fyrir rúmri viku.

Abdeslam hefur búið í Brussel eins og að minnsta kosti þrír aðrir úr hópi árásarmannanna frá París.

Gerð var húsleit í gær í fimm íbúðum í Brussel og nágrenni. Einnig var leitað á tveimur stöðum í Liège.

Yfirvöld hafa hert öryggisráðstafanir verulega, meðal annars við byggingar Evrópusambandsins í borginni, og segja enn verulega hættu á að alvarleg árás verði gerð í Brussel.

Íbúar borgarinnar eru margir hverjir óttaslegnir vegna ástandsins, en borgaryfirvöld leggja þó áherslu á að fólki sé almennt óhætt að vera á ferli úti við. Samt eigi fólk að forðast að gera sér ferð að óþörfu á fjölfarna staði.

Í Frakklandi hafa öryggisráðstafanir einnig verið hertar víða um land. Almennir lögreglumenn eru nú vopnaðir byssum, meira að segja í frítíma sínum.

François Hollande Frakklandsforseti boðar hertar árásir á bækistöðvar Daish-samtakanna í Sýrlandi. Þessi samtök, sem nefna sig Íslamskt ríki, hafa lýst yfir ábyrgð sinni á árásunum í París sem kostuðu 130 manns lífið.

Hollande átti í gær fund með David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sem sagðist styðja algerlega viðbrögð Hollandes við árásunum.

Hollande ætlar svo í dag að ferðast á fund Baracks Obama Bandaríkjaforseta. Á morgun tekur hann á móti Angelu Merkel Þýskalandskanslara í París og á fimmtudag heldur hann til Moskvu að hitta Vladimír Pútín Rússlandsforseta.

Pútín var svo sjálfur á ferðinni í gær og hitti bæði Hassan Rúhani forseta og æðsta leiðtogann Ali Khameini, meðal annars til að ræða við þá um loftárásir Rússa á uppreisnar- og hryðjuverkamenn í Sýrlandi.

Í leiðinni tilkynnti hann að banni Rússa við því að flytja til Írans tækjabúnað, sem nota má til auðgunar úrans, yrði aflétt. Á vef rússneskra stjórnvalda kemur fram að þessa stefnubreytingu megi rekja til þess að Rússum verði nú kleift að flytja auðgað úran inn frá Íran.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×