Fótbolti

Bale: Get orðið jafn góður og Ronaldo og Messi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Þó svo að Gareth Bale hafi verið gagnrýndur fyrir frammistöðu sína með Real Madrid að undanförnu hefur hann fulla trú á eigin getu.

Bale er í löngu viðtali í Daily Mirror í dag þar sem hann segir meðal annars að hann myndi aldrei útiloka endurkomu í ensku úrvalsdeildina.

Bale, sem hefur lengi verið orðaður við Manchester United, telur að hann geti bætt sig mikið og náð sömu hæðum og þeir Cristiano Ronaldo, liðsfélagi hans hjá Real, og Börsungurinn Lionel Messi hafa gert.

„Ég tel að ég geti gert það því ég veit hvaða hæfileika ég hef,“ sagði Bale í viðtalinu.

„Ég myndi ekki segja að það væri markmið hjá mér að vinna Gullboltann [FIFA]. Ég er ekki í þessu fyrir einstaklingsverðlaun. Þetta snýst um að vinna La Liga og Meistaradeildina. Þegar það tekst þá kemur hitt með,“ sagði Bale.

Hann segir að hann hafi aldrei reiknað með að verða valinn leikmaður ársins í ensku úrvalsdeildinni þegar hann lék með Tottenham.

„Ég reyndi bara að spila eins vel og ég gat og maður gerir eins mikið og maður getur fyrir liðið. Maður reynir að skora mörk og gefa stoðsendingar.“

„Sumir eru með einstaklingsverðlaunin á heilanum. Það virkar kannski fyrir þá en ég vil bara skora mörk, leggja upp og vinna titla. Ef einstaklingsverðlaunin koma þá er það bara bónus.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×