Skoðun

Landssöfnun Samhjálpar – Styðjum uppbyggingu í Hlaðgerðarkoti

Jón Norðfjörð skrifar
Mikilvæg starfsemi Samhjálpar er og hefur verið leið til betra lífs fyrir marga einstaklinga. Þannig starfi og árangri vill Samhjálp skila áfram til samfélagsins. Starfsemi félagsins hefur alla tíð verið öflug til stuðnings þeim sem minna mega sín í þjóðfélaginu. Margir þekkja til félagsins vegna reksturs Kaffistofu Samhjálpar í Borgartúni þar sem um 65 þúsund máltíðir eru gefnar skjólstæðingum félagsins á hverju ári.

Annað stórt verkefni Samhjálpar, sem sjaldnar er í umræðunni, er starfsemi meðferðarheimilisins Hlaðgerðarkots í Mosfellsdal. Þar hafa fjölmargir einstaklingar leitað skjóls á undanförnum rúmum 40 árum vegna áfengis- og/eða fíkniefnavanda og fengið meðferð sem hefur skilað mjög mörgum góðum árangri.

Vaxandi þörf fyrir Samhjálp

Í okkar fámenna þjóðfélagi er þörfin fyrir hjálparstörf og aðstoð við þá sem af ýmsum ástæðum lenda undir í lífinu, ótrúlega mikil. Áfengis- og fíkniefnavandinn vegur þar þungt og hefur valdið mun meiri vanda og skaða í okkar annars góða samfélagi en margir gera sér grein fyrir.

Það er staðreynd að áfengis- og fíkniefnanotkun eykst stöðugt með hörmulegum afleiðingum þar sem meðal annars eðlilegt líf fleiri og fleiri fjölskyldna er lagt í rúst. Þörfin fyrir aðstoð við áfengis- og fíkniefnaneytendur, jafnt yngri sem eldri einstaklinga vex stöðugt þrátt fyrir ýmiskonar velmeinandi forvarnarstörf á umliðnum árum, sem því miður hafa ekki skilað nægilega góðum árangri. Ótrúlega lítið fer fyrir nauðsynlegri umræðu og markvissum aðgerðum til að sporna gegn þessum mikla vanda.

Nær daglega má þó sjá og lesa í fjölmiðlum fréttir og frásagnir af ýmsum atvikum, afbrotum, heilbrigðisvandamálum o.þ.h. sem tengjast beint áfengis- og fíkniefnamálum. Því miður er sjaldnar rætt um mögulegar leiðir til lausna.

Landssöfnun Samhjálpar

Nú blásum við til sóknar hjá Samhjálp. Í ljósi framangreindra aðstæðna hefur stefnan verið sett á að efla starfsemina í Hlaðgerðarkoti með endurbótum og stækkun á húsnæðinu. Elsti hluti húsnæðisins er kominn til ára sinna og þarfnast viðhalds og endurnýjunar. Til að bæta úr því vantar félagið fjármagn og stuðning og því hefur verið ákveðið að leita liðsinnis hjá einstaklingum og fyrirtækjum með landssöfnun til uppbyggingar í Hlaðgerðarkoti og verður landssöfnunin í opinni dagskrá á Stöð 2 hinn 21. nóvember nk. Í undirbúningsvinnu fyrir landssöfnunina höfum við fundið fyrir miklum stuðningi og velvild hjá fyrirtækjum og einstaklingum sem fúslega styðja félagið í mikilvægum verkefnum þess og fyrir það vilja stjórn og starfsmenn færa öllum innilegar þakkir. Við hvetjum alla til að gerast bakhjarlar Hlaðgerðarkots með stuðningi við þetta góða og tímabæra verkefni.




Skoðun

Sjá meira


×