Fótbolti

Messi og Ronaldo keppa einu sinni enn um Gullboltann | Þessi eru tilnefnd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi og Cristiano Ronaldo.
Lionel Messi og Cristiano Ronaldo. Vísir/Getty
Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, tilkynnti í dag hvaða þrír leikmenn koma til greina sem besti knattspyrnumaður heims fyrir árið 2015. Tilnefningar til annarra verðlauna voru einnig gefnar út við sama tilefni.

Leikmennirnir þrír sem urðu efstir í kjörinu að þessu sinni voru þeir Cristiano Ronaldo, Lionel Messi og Neymar. Tveir þeir síðastnefndu spila saman hjá Barcelona og skoruðu báðir um helgina. Ronaldo spilar með Real Madrid á titil að verja.

Sigurvegarinn fær Gullbolta FIFA, Ballon d'Or, en þessi verðlaun urðu til í núverandi mynd árið 2010 með sameiningu verðlauna FIFA og verðlauna franska fótboltatímabilsins France Football.

Portúgalinn Cristiano Ronaldo hefur fengið Gullboltann undanfarin tvö ár en þar á undan vann Lionel Messi hann fjögur ár í röð. Enginn annar en þessir tveir hefur unnið Gullboltann frá árinu 2008 en þá vann Cristiano Ronaldo hann fyrst.

Þetta er í sjötta sinn sem verðlaunin eru afhent eftir sameininguna og Lionel Messi hefur verið meðal tveggja bestu leikmanna heims í öll skiptin. Messi á nú möguleika á því að vinna sinn fimmta Gullbolta.

Fleiri tilnefningar voru einnig gerðar opinberar við sama tilefni eða hverjir koma til greina sem þjálfarar ársins, hvaða þrjár eiga möguleika á því að vera valdar besta knattspyrnukona heims og hvaða þrjú mörk geta unnið Puskas-verðlaunin sem besta mark ársins.

Lionel Messi gæti unnið tvöfalt því eitt marka hans kemur til greina sem besta mark ársins.

Gullboltinn og öll hin verðlaunin verða síðan afhent með viðhöfn í Zürich þann 11. janúar næstkomandi.



Tilnefningar til verðlauna FIFA 2015:

Gullbolti FIFA

Cristiano Ronaldo (Real Madrid og Portúgal)

Lionel Messi (Barcelona og Argentína)

Neymar (Barcelona og Brasilía)

Besta knattspyrnukona heims hjá FIFA:

Carli Lloyd (Houston Dash og Bandaríkin)

Aya Miyama (Okayama Yunogo Belle og Japan)

Célia Sasic (FFC Frankfurt og Þýskaland)

Besti þjálfari ársins í karlaflokki hjá FIFA:

Pep Guardiola (Bayern München)

Luis Enrique (Barcelona)

Jorge Sampaoli (Landslið Síle)

Besti þjálfari ársins í kvennaflokki hjá FIFA:

Jill Ellis (Bandaríska landsliðið)

Mark Sampson (Enska landsliðið)

Norio Sasaki (Japanska landsliðið)

Besta mark ársins - Puskas-verðlaunin:

Alessandro Florenzi fyrir AS Roma

Wendell Lira fyrir Goianesia

Lionel Messi fyrir Barcelona




Fleiri fréttir

Sjá meira


×