Handbolti

Fyrsti sigur stelpnanna hans Þóris á HM var risasigur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nora Mörk var með þrjú mörk og þrjár stoðsendingar í kvöld.
Nora Mörk var með þrjú mörk og þrjár stoðsendingar í kvöld. Vísir/Getty
Norska kvennalandsliðið vann 26 marka sigur á Púertó Ríkó í kvöld, 39-13, í öðrum leik sínum í D-riðli á heimsmeistaramótinu í handbolta í Danmörku.

Þórir Hergeirsson þjálfar norska landsliðið eins og undanfarin ár en liðið varð Evrópumeistari undir hans stjórn í fyrra.

Norska liðið tapaði naumlega á móti Rússlandi í fyrsta leik sínum um helgina en átti ekki í miklum vandræðum með lið Púertó Ríkó.

Linn Jørum Sulland var markahæst með sjö mörk en Sanna Solberg skoraði sex mörk og Marta Tomac var með fimm mörk. Tomac gaf einnig sjö stoðsendingar.

Rússland vann tveggja marka sigur á Spáni, 28-26, fyrr í kvöld og er því með fullt hús á toppi riðilsins eins og lið Rúmeníu sem hefur unnið Púertó Ríkó og Kasakstan í tveimur fyrstu leikjum sínum.

Norsku stelpurnar mæta næst Kasakstan á morgun og það ætti að verða annar mjög auðveldur leikur.

Það var einnig leikið í C-riðli í dag en þar eru Brasilía og Frakkland efst og jöfn með þrjú stig. Frakkar gerðu 22-22 jafntefli við Suður Kóreu en Brasilía vann Austur-Kongó 26-11.

Þýskaland vann síðan sinn fyrsta sigur með því að bursta Argentínu 33-13.

Í A-riðli hafa Ungverjaland og Danmörk unnið tvo fyrstu leiki sína á HM og í B-riðli eru Holland og Svíþjóð með fullt hús eftir tvær umferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×