Handbolti

Íslendingaliðið sem vinnur bara á útivelli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tandri Már Konráðsson.
Tandri Már Konráðsson. Vísir/Ernir
Íslendingaliðið Ricoh vann eins marks útisigur á Redbergslids IK, 28-27, í sænsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Þetta var annar útisigur Ricoh í röð og sjá þriðji í síðustu fjórum útileikjum en þetta eru einu sigrar liðsins í fyrstu fjórtán umferðunum.

Íslenski landsliðsmaðurinn Tandri Már Konráðsson var með fjögur mörk og fjórar stoðsendingar í leiknum en hann skoraði tvö mikilvæg mörk á lokakafla leiksins.

Magnús Óli Magnússon skoraði eitt mark úr fimm skotum og átti einnig eina stoðsendingu.

Redbergslid komst í 2-0 og 3-1 í upphafi leiks og var 7-5 yfir eftir tíu mínútna leik. Ricoh skoraði þá fjögur mörk í röð og komst yfir í 9-7. Magnús Óli skoraði eitt af þessum fjórum mörkum.

Redbergslid náði aftur frumkvæðinu, komst í 13-10 og var síðan 14-13 yfir í hálfleik.

Redbergslid var 18-15 yfir þegar rúmar sex mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum en þá kom frábær kafli hjá Ricoh-liðinu sem skoraði aftur fjögur mörk í röð og komst í 19-18.

Ricoh byggði ofan á þennan frábæra kafla og var 24-20 yfir þegar tólf mínútur voru eftir af leiknum.

Leikmenn Redbergslid unnu muninn upp á lokakaflanum en Ricoh-liðið hélt út og tryggði sér sigurinn. Það skipti miklu máli að Tandri Már skoraði tvö marka sinna á lokakafla leiksins.

Ricoh fór upp úr fallsæti með þessum góða sigri en liðið er nú tíunda sæti deildarinnar eða í næsta sæti á eftir Eskilstuna Guif.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×