Skoðun

Verðbólga og verðtrygging á mannamáli

Kristófer Kristófersson skrifar
Allt frá því að ég man eftir mér hafa hugtökin verðbólga og verðtrygging verið eitur í beinum Íslendinga. Núna er kominn aukinn þrýstingur frá almenningi á annan ríkisstjórnarflokkinn að standa við kosningaloforð sín um að taka á verðtryggingunni. Til þess að skapa líflegri, fallegri og uppbyggilegri umræðu um það mál er þekking á öllum hliðum þess lykillinn.

Mikil verðbólga er slæm, það eru allir hagfræðingar sammála um, lítil verðbólga er aftur á móti talin halda hagkerfum landa gangandi. Verðtrygging í sinni einföldustu mynd varðveitir verðmæti peninga í takt við verðhækkanir í samfélaginu, öðru nafni verðbólga.

Segjum sem svo að þú eigir þúsund krónur í dag, fyrir hann færðu kexpakka, eftir eitt ár er sami þúsundkall í veskinu þínu en þá færðu einungis hálfan kexpakka. Verðbólga hefur því rýrt verðgildi þúsund króna seðilsins um 50%. Ef sá hinn sami hefði lagt þennan þúsundkall inn á verðtryggðan bankareikning í eitt ár (sem er reyndar ekki hægt, lágmarks binding er 3 ár fyrir verðtr. reikninga) þá hefði hann getað keypt kexpakkann, þó að kexið væri dýrara. Hver hagnast hérna á verðtryggingu?

Nú að útlánum, svo virðist sem fólk telji almennt að með því að borga af verðtryggðu láni sé bankinn að stela peningum af því. Hér áður fyrr á 8. áratugnum þegar verðtrygging var ekki við lýði (fyrir 1979), tók fólk óverðtryggð lán á föstum handstýrðum vöxtum. Verðbólga varð mikil og fór langt umfram nafnvexti lánanna, hvað gerðist? Raungildi lánanna hríðféll meðan eignaverð og laun snarhækkuðu, þ.e. fólk fékk hluta af lánunum sínum gefins. Af hverju gerðist það?

Nauðsynlegar rekstrartekjur banka

Bankar sem lána fólki og fyrirtækjum peninga þurfa að passa sig á að fá þessa peninga aftur til baka, með vöxtum, til þess að geta starfað áfram. Vextir eru því nauðsynlegar rekstrartekjur banka. Hugsum okkur tvo banka, Verðtryggða bankann og Óverðtryggða bankann. Verðtryggði bankinn sem gefur út verðtryggð lán þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af verðbólgu, hann fær sitt áfram og setur nafnvexti sem skila honum nægum tekjum af lánunum. Óverðtryggði bankinn þarf hins vegar að passa sig á því að nafnvextir hans nái bæði yfir þær vaxtatekjur sem hann þarf og verðbólgu, en hvaða verðbólgu? Verðbólgu í dag? Nei, verðbólgu í framtíðinni. Nafnvextir Óverðtryggða bankans byggja því í raun á spámennsku um framtíðina. Nú spyr ég þig lesandi góður, ef bankinn velur vexti í dag, er ekki líklegt að hann hafi vaðið fyrir neðan sig og velji nafnvexti umfram verðbólguspár?

Sú er akkúrat raunin og sagan hefur sýnt að raunvextir verðtryggðra lána eru jafnan lægri en óverðtryggðra. Sá sem sakar banka um að ræna peningum af fólki með verðtryggðum lánum verður þá að saka sama banka um að stela líklega meira af fólki með óverðtryggð lán. Ástæðan fyrir því að fólk græddi á óverðtryggðu lánunum frá 8. áratugnum var í fyrsta lagi vegna þess að bankarnir voru barnalegir og lánuðu á of lágum vöxtum og í öðru lagi vegna þess að vextir voru fastir til lengri tíma. Í dag er yfirleitt aðeins hægt að læsa vexti til 5 ára á óverðtryggðum húsnæðislánum og ég er á þeirri skoðun að bankar á Íslandi séu alls ekki barnalegir, heldur vel reknar fjármálastofnanir.

Að vona að eftir þennan lestur geti lesendur byggt skoðun sína á verðtryggingu á betri grunni en ella.




Skoðun

Sjá meira


×