Skoðun

Kvennaathvarfið og jólin

Sigþrúður Guðmundsdóttir skrifar
Í Kvennaathvarfinu eru ýmsir fastir desemberliðir. Meðal aðventuverkanna er móttaka gjafa og styrkja af ýmsu tagi, frá einstaklingum, stofnunum og félagasamtökum sem vilja láta gott af sér leiða fyrir jólin. Það eru fallegar heimsóknir.

Annað sem tilheyrir aðventunni er umræðan um ofbeldi um jólin. Þá er talað um að auðvitað ættum við að geta lokað Kvennaathvarfinu um jólin af því að þó heimilisofbeldi sé nógu slæmt í sjálfu sér þá sé heimilisofbeldi um jól alveg út úr kortinu.

Vissulega er þetta falleg hugsun; að jólin séu svo heilög og mannbætandi að menn sem hafa beitt konur sínar ofbeldi allt árið um kring hætti því í bili. Reyndar er það þannig í sumum tilfellum; ofbeldi í nánum samböndum er hreint ekki eins stjórnlaust og oft er talið og fólk sem beitir því stjórnar hegðun sinni iðulega á þann hátt að ofbeldið á sér stað þegar engin vitni eru, áverkarnir eru ekki á sýnilegum stöðum og menn sem þrengja að öndunarvegi kvenna sinna þannig að þær missa meðvitund sleppa, til allrar hamingju, oftast takinu áður en dauði hlýst af. Og sumt fólk beitir ofbeldi “bara” þegar börnin eru ekki heima eða “bara” þegar illa hefur gengið í vinnunni. Mögulega “bara” þegar það eru ekki jól. Hins vegar er heimilisofbeldi um jól ekki sjálfkrafa neitt annað og hræðilegra en heimilisofbeldi á öðrum tímum ársins. Ofbeldi á heimilum er hræðilegt og á ekki að viðgangast.

Samkvæmt rannsókn frá árinu 2008 eru 1-2% fullorðinna kvenna á Íslandi beittar líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi (eða líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi) af hálfu maka eða fyrrum maka á hverju ári. Það getur jafngilt því að á hverjum einasta degi séu 5 konur beittar ofbeldi af þessu tagi. Það er að segja eigi ofbeldið sér “bara” stað einu sinni á ári, sem það gerir líklega ekki.

Ef hver kona er að meðaltali beitt ofbeldi tvisvar á ári, sem er líklega of lág tala líka, geta þetta verið 10 konur á hverjum degi allan ársins hring. Sem getur verið á aðfangadag rétt eins og aðra daga. En er svo miklu hræðilegra að ofbeldi sé beitt á jólunum heldur en á páskunum, á þjóðhátíðardaginn, megrunarlausa daginn, afmælum barnanna, daginn þegar fyrsti snjórinn fellur eða þegar fyrstu krókusarnir skjóta kollinum upp úr vetrarmoldinni, daginn þegar sólin fer að hækka á lofti, daginn sem ástvinur deyr, þegar það kemur í ljós að kona er barnshafandi eða þegar frumburður fæðist?

Er ekki ofbeldi í nánum samböndum hræðilegt í sjálfu sér og ættum við ekki bara að geta lokað Kvennaathvarfinu burtséð frá árstíma? Er heimilisofbeldi ekki bara svo fáránleg mótsögn eitt og sér að það þarf ekki jól til að gera það óásættanlegt?

Kvennaathvarfið verður opið öll jólin eins og venjulega. Hér munu dvelja konur og börn sem sjálfsagt gætu vel hugsað sér að vera annars staðar en hér verður örugglega líka hlegið og leikið, teknir upp pakkar og borðaðar piparkökur eins og á öðrum heimilum. Þökk sé öllum þeim sem hugsa hlýlega til þeirra sem hér dvelja.

Þessi grein er hluti af 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi.




Skoðun

Sjá meira


×