Skoðun

Til hamingju sjálfboðaliðar. Dagurinn er ykkar!

Jóhanna Róbertsdóttir skrifar
Að kvöldi mánudagsins 23. nóvember kom upp eldur í Plastiðjunni á Selfossi. Um tíma skapaðist neyðarástand og er mikil mildi að ekki hafi farið verr. Slökkvistarf gekk vel og á allt það fólk sem að því kom þakkir skildar.

En það eru fleiri sem komu að aðgerðum vegna brunans í Plastiðjunni. Á þriðja tug sjálfboðaliða Rauða krossins í Árnesingadeild svöruðu neyðarkalli og opnuðu fjöldahjálparstöð við Vallarskóla. Voru þeir mættir á vettvang mínútum eftir að kallið kom og stöðin var opin áður en síðasti slökkvibíllinn var mættur við Plastiðjuna. Sjálfboðaliðar tóku á móti fólki sem þurfti að yfirgefa heimili sín í skyndi, hlúðu að því í öruggu skjóli, buðu því næturstað og hressingu. Þessir sjálfboðaliðar eiga einnig þakkir skildar.

Sjálfboðið starf er eitt af grunngildum Rauða krossins. Á heimsvísu telja sjálfboðaliðar hreyfingarinnar rúmlega 20 milljónir og eiga þeir allir sameiginlegt að starfa af óeigingirni í þágu mannúðar. Tvenn friðarverðlaun Nóbels eru verðskuldaðar viðurkenningar hreyfingarinnar, en heiðurinn að þeim eiga sjálfboðaliðarnir - burðarás hjálparstarfs um allan heim.

Í hverri viku er mikill fjöldi sjálfboðaliða Rauða krossins á Íslandi að störfum en í dag eru þeir rúmlega 4000 einstaklingar. Það telst einkar frambærilegt á heimsvísu og þarf ekki einu sinni höfðatölu til að undirstrika það. Þetta eru konur og karlar, ungir og aldnir, allt fólk sem tilbúið er að gefa af tíma sínum til stuðnings öðrum. Verkefnin eru fjölmörg og fjölbreytt, en allt verkefni sem styðja einstaklinga eða samfélagið með einum eða öðrum hætti.

Þörfin aldrei verið meiri

Sem dæmi um þau verkefni sem sjálfboðaliðar vinna að má nefna neyðarvarnir og skyndihjálp, heimsóknaþjónustu, fatasöfnun og fataflokkun, að útbúa fatapakka fyrir fátækar fjölskyldur, afgreiðsla í verslunum Rauða krossins, svara í Hjálparsímann 1717, svo ekki sé minnst á stuðning við hælisleitendur og flóttafólk. Nú í haust hefur sjálfboðaliðum Rauða krossins fjölgað um 1500 manns, sem hafa allir hug á að aðstoða flóttafólk og hælisleitendur. Þörfin hefur aldrei verið meiri og við í Rauða krossinum erum stolt af því að almenningur svaraði kallinu.

Að lokum þarf að minnast á tombólubörnin, sem oft vinna sitt fyrsta sjálfboðastarf með því að halda tombólu til styrktar Rauða krossinum. Sá peningur sem tombólubörn safna er ávallt nýttur til að styðja við börn í neyð.

Öllum sjálfboðaliðum Rauða krossins er vert að þakka. Án þeirra væri starf félagsins um allt land ekki aðeins fátæklegra, heldur ómögulegt. Til hamingu með daginn sjálfboðaliðar, 5. desember er dagurinn ykkar!




Skoðun

Sjá meira


×