Handbolti

74. sigur Barcelona í röð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Valur fagnar marki í leik með Barcelona.
Guðjón Valur fagnar marki í leik með Barcelona. Vísir/Getty
Sigurganga Barcelona heldur áfram í spænsku úrvalsdeildinni en liðið vann í kvöld sigur á Villa de Aranda, 38-26, í kvöld.

Barcelona var reyndar undir að loknum fyrri hálfleik, 14-13, en tók fljótt völdin í síðari hálfleik. Liðið gerði út um leikinn með því að skora 25 mörk í seinni hálfleiknum.

Þetta var 74. sigur liðsins í deildinni í röð en í síðustu umferð bætti Barcelona 43 ára gamalt met Granollers sem afrekaði að spila 72 leiki í röð án þess að tapa.

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði átta mörk fyrir Barcelona í kvöld og var markahæstur sinna manna. Hann nýtti öll skotin sín í leiknum nema eitt.

Barcelona er á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir þrettán leiki en Villa de Aranda er í sjötta sæti með fimmtán stig.

Síðasti tapleikur liðsins kom þann 18. maí 2013, er liðið tapaði fyrir Naturhouse La Rioja á heimavelli, 33-31.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×