Skoðun

268% verðmætaaukning ferskra sjávarafurða

Runólfur Geir Benediktsson skrifar
Nýsköpun hefur verið mikil í sjávar­útvegi sem og víðar í íslensku samfélagi. Margt jákvætt kom fram í nýrri skýrslu Íslandsbanka á dögunum um íslenskan sjávarútveg þar sem skýrsluhöfundar veita lesendum innsýn í núverandi stöðu sjávarútvegsins sem og þróunina síðastliðin ár.

Meðal þess sem kom fram í skýrslunni er að framleiðni í íslenskum sjávarútvegi hefur verið að aukast og hefur tvöfaldast á hvert starf ef horft er aftur til aldamóta. Það er sérstaklega ánægjulegt að þessa framleiðniaukningu má að miklu leyti þakka íslenskri tækniframþróun og verðmætasköpun. Aðilar innan sem utan sjávarútvegsins hafa unnið mikið og gott starf á síðustu árum í bættum aðferðum til veiða, vinnslu og nýtingar sjávarfangsins.

Önnur birtingarmynd þess góða árangurs sem hefur áunnist í aukinni verðmætasköpun er þróun útflutnings ferskra sjávarafurða. Ef aftur er horft til aldamóta þá hefur útflutningur á ferskum sjávarafurðum minnkað um 47 prósent. Þetta er umtalsverður samdráttur í magni og gæti komið á óvart í ljósi þeirrar umræðu sem hefur verið á aukna áherslu á útflutning ferskra afurða. Þegar verðmæti þessara fersku afurða er aftur á móti borið saman þá hefur það aukist um 94% yfir sama tímabil. Verðmætaaukning ferskra sjávarafurða frá áramótum hefur því verið 268% á hvert útflutt tonn sem er eftirtektarverður árangur. Þessa aukningu má að hluta til rekja til hagstæðrar þróunar á gengi íslensku krónunnar og verðlags sjávarafurða. Stærsta framlagið liggur hins vegar í betri nýtingu og aukinni verðmætasköpun. Um aldamótin þekktist það að heill fiskur væri fluttur út til frekari vinnslu erlendis en nú er það algjör undantekning. Í dag keppast sjávarútvegsfélögin við að skila ferskum fiski til landvinnslunnar þar sem hann er m.a. flakaður eða skorinn í bita. Þessi flök og bitar eru svo flutt út og fyrir þá afurð er greitt umtalsvert meira á hvert kíló eins og tölurnar hér að ofan bera svo glögglega með sér. Nýsköpun og tækniþróun íslenskra fyrirtækja í nánu samstarfi við útgerðir og fiskvinnslur hafa því skilað íslensku efnahagslífi miklum verðmætum og hefur þessi árangur vakið athygli langt út fyrir landsteinana.

Aukning í framleiðni sem og útflutningsverðmæti ferskra afurða eru aðeins tvö af mörgum jákvæðum atriðum sem fram koma í skýrslu Íslandsbanka um íslenskan sjávarútveg.




Skoðun

Sjá meira


×