Skoðun

Lokun St. Jósefsspítala 2011 – vanvirðing við konur?

Ámundi H. Ólafsson skrifar
Í árslok 2011 var St. Jósefsspítali sameinaður Landspítala. Það var búist við að þetta yrði kærkomin viðbót fyrir Landspítala.

Þarna voru 50 sjúkrarúm í heildina, bæði var um að ræða 25 rýma handlækningadeild sem sérhæfði sig í að þjónusta konur og kvensjúkdóma og einnig 25 rýma lyflækningadeild.

400 milljóna fjárveiting fylgdi vegna rekstrarársins 2012. Reyndin varð sú, að rekstri St. Jósefsspítala var hætt strax í ársbyrjun 2012. Spítalinn var tæmdur.

Nothæf tæki voru flutt á Landspítala. Öll sjúkrarúm fjarlægð og gefin til útlanda. Landspítali hefur síðan kvartað reglulega vegna skorts á legurýmum sem orsakast af langlegusjúklingum sem ekki er hægt að útskrifa. Hvað veldur því að St. Jósefsspítali er ekki nothæfur fyrir langlegusjúklinga?

Spítalinn er byggður á svipuðum tíma og Landspítali og Vífilsstaðaspítali sem báðir eru nothæfir enn. Alltaf var haldið vel utan um viðhald á byggingum St. Jósefsspítala og aldrei fannst þar mygla og fúkki, sem er annað en á Landspítala nútímans. Á hinni sérhæfðu kvensjúkdómadeild St. Jósefsspítala var almennt lítill biðlisti og sú þjónusta mjög eftirsótt.

Landspítalinn tók yfir alla þá þjónustu.

Samkvæmt forsíðufrétt Fréttablaðsins 19. nóvember sl. bíða 180 konur eftir greiningu, 238 bíða eftir aðgerð vegna blöðrusigs eða legsigs, 37 vegna þvagleka. Samkvæmt fréttinni getur bið eftir aðgerð verið nær tvö ár. Kristín Jónsdóttir er yfirlæknir á kvensjúkdómadeild. Hún segir þessa sjúkdóma mikið feimnismál. Kristín segir að fjöldi fyrrgreindra aðgerða hafi áður verið gerður á St. Jósefsspítala en við lokun hans fyrir fjórum árum hafi aðgerðirnar flust á Landspítalann. „Áður var í raun enginn biðlisti vegna slíkra aðgerða hjá kvennadeild Landspítalans. Núna er eins og við séum að hlaupa á eftir skottinu á okkur,“ segir yfirlæknir í  fréttinni.

Þegar St. Jósefsspítala var lokað vakti það engin viðbrögð hjá konum og kvennasamtökum. Að fenginni reynslu vekur það furðu að enn skuli engin viðbrögð merkjast meðal samtaka kvenna varðandi þetta stóra og vandmeðfarna vandamál þeirra.

Samtök kvenna studdu stofnun Landspítalans verulega. Nú mega konur sjálfar líða mikið fyrir verulega skerta þjónustu sömu stofnunar.

Það má vissulega minnast fleira en 100 ára afmælis kosningaréttar. Því mættu kvenfélagasamtök um næstu áramót minnast þessara fjögurra ára vonbrigða með niðurlagningu St. Jósefsspítala, sem þau hafa látið óátalda hingað til.




Skoðun

Sjá meira


×