Handbolti

Snorri Steinn skoraði tvö mörk í stjörnuleiknum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Snorri Steinn hefur farið á kostum með Nimes.
Snorri Steinn hefur farið á kostum með Nimes. mynd/nimes
Snorri Steinn Guðjónsson, leikstjórnandi íslenska karlalandsliðsins í handbolta, skoraði tvö mörk úr þremur skotum í stjörnuleik frönsku 1. deildarinnar í handbolta sem fram fór í gær.

Snorri var í liði erlendra leikmanna deildarinnar sem tapaði fyrir úrvalsliði franskra leikmanna með fimm marka mun, 43-38.

Ásgeir Örn Hallgrímsson var einnig í úrvalsliði erlendra leikmanna en hann komst ekki á blað. Skyttan örvhenta reyndi eitt skot á markið en það geigaði.

Bæði Snorri og Ásgeir Örn spila með Nimes sem er í fimmta sæti frönsku deildarinnar með 16 stig eftir 14 leiki.

Snorri hefur farið á kostum í vetur og er lang markahæstur í Nimes-liðinu með 98 mörk auk þess sem hann stýrir leik liðsins. Næsti maður, Steven George, er með 55 mörk.

Snorri Steinn er þriðji markahæsti leikmaður deildarinnar sem stendur en bara Nemanja Ilic (102), leikmaður Toulouse, og Mikkel Hansen (122), stórskytta PSG og góðvinur Snorra, hafa skorað fleiri.

Næstur á eftir Snorra á markalista deildarinnar er spænski hornamaðurinn Valero Rivera, leikmaður Nantes, en hann er búinn að skora 93 mörk. Rivera var markahæstur erlendu leikmanna stjörnuleiksins í gær með sex mörk.

Lub Abalo, hornamaður PSG og franska landsliðsins, var markahæstur allra í leiknum með átta mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×