Innlent

Fíkniefni fyrir tæpan milljarð: Maðurinn játar en konan neitar áfram sök

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá tollaeftirliti á Seyðisfirði.
Frá tollaeftirliti á Seyðisfirði. Vísir
Mál ríkissaksóknara á hendur hollensku pari sem ók húsbíl til landsins með fíkniefni innanborðs að verðgildi um eins milljarðs íslenskra króna var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á mánudaginn. Parið er á 45. aldursári og kom til landsins með Norrænu á Seyðisfirði þann 8. september síðastliðinn.

Efnin sem fundust í húsbílnum þann 8. september síðastliðinn.Vísir/GVA
Í varadekki, tveimur gaskútum og fjórtán niðursuðudósum fundust 209 þúsund e-töflur og rúmlega tíu kíló af MDMA mulningi. Ef miðað er við könnun SÁÁ á söluverði efnanna á Íslandi má reikna út að verðmæti þeirra er um 950 milljónir króna.

Maðurinn hefur í skýrslutökum hjá lögreglu játað að hafa vitað af efnunum í húsbílnum og hélt hann sig við þá játningu við þingfestingu á mánudaginn.

Konan hefur hins vegar frá upphafi haldið sig við þá frásögn að hún hafi ekki vitað af efnunum og maki hennar tekið undir það.

Aðalmeðferð málsins fer fram um miðjan janúar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×