Handbolti

Sigurbergur með sex mörk í áttunda sigri Team Tvis Holstebro í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigurbergur og félagar eru á frábæru skriði.
Sigurbergur og félagar eru á frábæru skriði. vísir/ernir
Fimm leikir fóru fram í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Sigurbergur Sveinsson átti góðan leik fyrir Team Tvis Holstebro sem vann þriggja marka sigur, 22-25, á Nordsjælland á útivelli.

Sigurbergur skoraði sex mörk úr 11 skotum og var næstmarkahæstur í liði Holstebro sem hefur unnið átta leiki í röð og er með tveggja stiga forskot á toppi deildarinnar. Egill Magnússon var ekki í leikmannahópi Holstebro í kvöld.

Vignir Svavarsson og félagar í Midtjylland töpuðu sínum fjórða leik í röð þegar liðið lá, 31-29, fyrir GOG á útivelli.

Vignir skoraði þrjú mörk úr fjórum skotum í leiknum en Midtjylland er í 10. sæti deildarinnar með 12 stig, fimm stigum frá úrslitakeppnissæti.

Íslendingarnir í liði Mors-Thy skoruðu samtals fjögur mörk þegar liðið tapaði með átta marka mun, 33-25, fyrir Skjern á útivelli.

Guðmundur Árni Ólafsson skoraði þrjú mörk fyrir Mors-Thy og Róbert Aron Hostert eitt. Agnar Smári Jónsson komst ekki á blað.

Mors-Thy er í 11. sæti deildarinnar með 12 stig.

Þá vann Ribe-Esbjerg óvæntan sigur á meisturum Kolding, 22-20, og Skanderborg vann botnlið Skive, 27-26.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×