Handbolti

Kiel úr leik í þýska bikarnum | Magdeburg komst áfram

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alfreð hefur fjórum sinnum gert Kiel að bikarmeisturum.
Alfreð hefur fjórum sinnum gert Kiel að bikarmeisturum. vísir/getty
Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar í Kiel eru úr leik í þýsku bikarkeppninni í handbolta eftir sjö marka tap, 27-34, fyrir bikarmeisturum Flensburg í kvöld.

Flensburg var með undirtökin nær allan leikinn og leiddi með þremur mörkum í hálfleik, 15-18, eftir 6-3 sprett undir lok fyrri hálfleiks.

Í seinni hálfleik dró enn í sundur með liðunum. Kiel náði reyndar að minnka muninn í tvö mörk, 21-23, þegar 19 mínútur voru eftir en þá rykktu bikarmeistararnir aftur frá, skoruðu sex af næstu níu mörkum og náðu fimm marka forystu, 24-29.

Það bil náðu lærisveinar Alfreðs ekki að brúa og Flensburg fagnaði öruggum sigri, 27-34.

Hægri vængurinn var mjög öflugur hjá Flensburg í leiknum en Holger Glandorf og Lasse Svan Hansen skoruðu báðir níu mörk.

Domagoj Duvnjak var markahæstur í liði Kiel með sjö mörk en Niclas Ekberg og Marko Vujin komu næstir með fimm mörk hvor. Varnarleikur þýsku meistaranna var hins vegar slakur í kvöld og markvarslan sama og engin.

Magdeburg, sem fór alla leið í úrslitaleik bikarkeppninnar á síðasta tímabili, bar sigurorð af Göppingen, 29-25, í fyrsta leik liðsins eftir brottrekstur Geir Sveinssonar.

Magdeburg hefndi því fyrir tapið fyrir Göppingen í þýsku úrvalsdeildinni um helgina en sá leikur var banabiti Geirs.

Robert Weber var einu sinni sem oftar markahæstur hjá Magdeburg með 10 mörk en sex þeirra komu af vítalínunni. Mimi Kraus skoraði sömuleiðis 10 mörk fyrir Göppingen.

Í B-deildinni mátti Íslendingaliðið TV Emsdetten þola átta marka tap, 24-32, fyrir HSC 2000 Coburg á heimavelli.

Ernir Hrafn Arnarson var markahæstur í liði Emsdetten með átta mörk. Anton Rúnarsson og Oddur Gretarsson gerðu tvö mörk hvor.

Emsdetten er í 7. sæti deildarinnar með 22 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×