Skoðun

Friður í Jerúsalem á aðventu

Hjörtur Magni Jóhannsson skrifar
Það eru forréttindi að vera boðið að taka þátt í friðarráðstefnu á aðventu í borginni helgu. Saman voru komnir trúarleiðtogar innan gyðingdóms, kristni og íslam.

Borgin stendur 800 metrum yfir sjávarmáli í Júdeuhæðum. Í vestur er stutt niður á Miðjarðarhafsströndina. Í austur liggur leiðin rúma þúsund metra bratt niður á við. Þar í Jórdandalnum 250 metrum undir sjávarmáli er að finna Jeríkó, elstu borg á jörðu.

Borg Friðar

Á hebresku er orðið Jerúsalem dregið af sömu rót og orðið friður „Shalom“­ og „Salam“ á arabísku. Miklar aðventu-friðarvonir eru bundnar borginni bæði innan gyðingdóms sem kristni. Þó hefur líklegast ekki verið eins mikið tekist á og barist um neina borg og þessa borg friðarins sem á sér um fjögur þúsund ára sögu.

Jerúsalem er helgasta borg á jörðu í hugum gyðinga og kristinna manna og íslam gerir einnig tilkall til hennar. Borgin er skurðpunktur þrennra stóru eingyðistrúarbragða heimsins.

Bræðurnir þrír

Gamla testamentið er bakgrunnur eingyðistrúarhefðanna þriggja. Guðinn er aðeins einn þó svo að trúarritin eða túlkunargleraugun; Talmúd, Nýja testamentið og Kóraninn séu ólík. Trúarritin hafa orðið til á afar ólíkum tímum og við gjörólíkar aðstæður og eru því ekki samhljóma. Hver siðurinn fyrir sig hefur reynt að eigna sér almættið og sníða það að eigin sérþörfum. Með einstrengingshætti, afbrýðisemi og bókstafstrú hafa bræðurnir gert guð að vopni. Trúin, hefðin, siðurinn hefur verið notaður til að upphefja ættina, ættbálkinn, héraðið, landsvæðið, þjóðina, ríkið. Og með sama hætti útiloka aðra, refsa, skapa ótta og jafnvel fremja níðingsleg hryðjuverk. Krossfarirnar á miðöldum, helför gyðinga í hinu kristna Þýskalandi, hlutskipti Palestínumanna á Vesturbakkanum og Gaza undir herstjórn Ísraelsmanna, sem og hryðjuverkin í París fyrir skömmu, tala sínu máli.

Tilvistaröryggi

En trúarhefðunum þrem var og er ekki ætlað að boða þrjá ólíka Guði. Það sem tengir saman er margfalt fleira og mikilvægara en það sem sundrar. Þar ber hæst áhersluna á samhygð, náungakærleika og samhjálp. Þann grunn er að finna í sjálfu Gamla testamentinu.

Kjarni trúarbragðanna er ekki hin eina sanna opinberun í okkar helgiritum, eða boð og bönn til að greina okkur frá hinum. Nei. Kjarni trúarbragðanna er að veita okkur öllum tilvistaröryggi. Trúarþörf fólks er yfirleitt leit að tilvistaröryggi. Að við fáum tilfinningu fyrir því hvaðan við komum, hver við erum, hvert við stefnum og að við séum hluti af stærri heild. En trúarstofnanir og misvitrir trúarleiðtogar hafa gert út á þessa eðlisþörf okkar og snúið göfugum gildum á hvolf.

Er trúin vandinn eða lausnin?

Þegar fulltrúar trúarhefðanna setjast niður og tala saman þá verða allir að gefa aðeins eftir. Hluti vandans liggur hjá trúarleiðtogum og í því hvernig þeir skilja sitt hlutverk. Margir leggja alla áherslu á sína einu réttu trúarhefð og fornu rit sem Guð einn talar í gegnum og engum öðrum er gefinn. Leiðtogarnir; rabbínar, ímamar eða prestar geta einir túlkað Guðs eina heilaga orð. Það gefur þeim völd og áhrif. Það getur verið erfitt fyrir áhrifamikla og volduga trúarleiðtoga að viðurkenna þetta.

Lausn – ný viðmið

Trúarlegir leiðtogar þurfa að temja sér ný viðmið og læra að hugsa út fyrir kassalagaðar hefðir. Mikilvægt er að forðast allt tal um algildan sannleika eða endanlegar opinberanir. Aðeins Guð einn er óbreytanlegur. Allt annað er breytingum háð. Meira að segja hugmyndir okkar um Guð, þær eiga að breytast því að Guð er stöðugt að og okkur er ætlað að læra nýja hluti. Þannig uppgötvum við ný sannindi um okkur sjálf, um náungann og um Guð í gegnum samskipti okkar við náungann. Því þar er jú Guð að finna samkvæmt orðum Jesú frá Nazaret.

Að brjóta niður

aðskilnaðarmúrinn

Trúarbrögðunum er ekki einum um að kenna. En þau þurfa að kannast við sína ábyrgð. Hvernig þau hafa vissulega verið notuð til að reisa aðskilnaðarmúra í stað þess að byggja friðarbrýr. Við eigum að draga lærdóm af biturri átakasögu.

Þegar helgar ritningar eru misnotaðar þá þurfum við að leita Guðs handan ritninganna. Við leitum Guðs handan útilokandi trúarjátninga, handan einstrengingslegra hefða, handan þröngsýnnar bókstafshyggju og jafnvel handan trúarbragða þegar þau eru misnotuð. Við þurfum að opna friðarvoninni leið í gegnum múrinn. Við þurfum að brjóta niður múra haturs og tortryggni. Skapa aðventu eftirvæntingar um sátt og samlyndi milli hefðanna þriggja.




Skoðun

Sjá meira


×