Skoðun

Við verslum ekki með mannréttindi

Björgvin G. Sigurðsson skrifar
Jafn atkvæðisréttur er mannréttindi, og með þau verslum við ekki,“ sagði Héðinn Valdimarsson, fyrrverandi þingmaður Alþýðuflokksins og fyrsti flutningsmaður frumvarps til laga um að landið allt yrði eitt kjördæmi árið 1927. Þar með yrðu þau grundvallarmannréttindi tryggð að atkvæði hvers okkar hefði sömu þyngd og annars. Síðan hefur slíkt þingmál verið flutt nokkrum sinnum, meðal annars af Alþýðuflokksformönnunum Jóni Baldvini Hannibalssyni og Guðmundi Árna Stefánssyni.

Nýverið lögðum við nokkrir þingmenn fram frumvarp þess efnis að landið verði eitt kjördæmi og atkvæði allra landsmanna vegi jafn þungt. Ég flutti slíkt mál áður fyrir fimm árum í þinginu sem fékk mikinn stuðning úr öllum flokkum.

Í huga Héðins var jafn kosningarréttur mannréttindamál og gerði hann engan greinarmun á útilokun frá kosningarrétti og misvægi atkvæða. Hvort tveggja er brot á þeim mannréttindahugmyndum sem lýðræðisleg stjórnskipun byggir á. Á þessari meginreglu byggir frumvarp okkar nú enda mannréttindi algild en ekki mannasetningar sem verslað er með.

Kostirnir við eitt kjördæmi

Kostir þess að landið verði eitt kjördæmi eru fjölmargir, þó að augljóslega verði að huga að nokkrum þáttum máls og ekkert fyrirkomulag sé hafið yfir rökræður og gagnrýni. Hér eru nokkrir nefndir: 1. Fullkominn jöfnuður næst milli kjósenda og misvægi atkvæða er ekki lengur til staðar. 2. Stjórnmálaflokkar fá þann þingmannafjölda sem atkvæði þeim greidd segja til um. 3. Þingmenn hafa heildarhagsmuni að leiðarljósi í störfum sínum en ekki þröng kjördæmasjónarmið. 4. Kosningakerfið er einfalt og auðskilið.

Þeir gallar sem nefndir hafa verið á því að landið verði eitt kjördæmi eru þeir helstir að þingmenn verði of fjarri kjósendum sínum samfara minnkandi áhrifum dreifbýlisins hvað fjölda þingmanna varðar. Einnig er nefnt að flokksræði gæti aukist þar sem fyrir liggur að hjá stærri stjórnmálaflokkum yrði um nokkurs konar sjálfkjör að ræða hjá efstu frambjóðendum þeirra á landslistum. Flutningsmenn frumvarpsins benda hins vegar á að vilji stjórnmálaflokkar sækja kjörfylgi vítt og breitt um landið leggja þeir framboðslista sína vitaskuld fram á þann veg að þar verði góð breidd fulltrúa þéttbýlis og dreifbýlis.

Persónukjör og bein röðun kjósenda

Til að tryggja virkt lýðræði við val fulltrúa flokkanna á framboðslistum kemur einnig til álita að í kosningalög yrðu fest ákvæði í þá veru. Má þar nefna ákvæði um persónukjör, auknar heimildir kjósenda við endurröðun frambjóðenda á framboðslistum og að vægi þeirra breytinga yrði aukið umtalsvert, hugsanlegt frelsi kjósenda til að velja einstaklinga á fleiri en einum framboðslista og fleiri skyld atriði. Grundvallaratriðið er að með því að gera landið að einu kjördæmi og öll atkvæði kosningarbærra landsmanna jafn þung er stigið stórt skref í mannréttindum á Íslandi. Engin haldbær rök eru fyrir því að vægi atkvæða sé misjafnt eftir búsetu fólks. Aðrar leiðir en kosningakerfið eru miklu eðlilegri til þess að bæta stöðu einstakra byggða til búsetu í þeim. Því teljum við flutningsmenn málsins tímabært og áríðandi að ráðast í þessar breytingar á stjórnarskrá landsins þannig að breytingar þessar taki gildi sem fyrst.




Skoðun

Sjá meira


×