Skoðun

Höndin – vel útrétt hönd

Garðar Baldvinsson skrifar
Þegar maður lendir í áföllum eða erfiðleikum í lífinu þarf maður einhvern til að styðja við sig. Ég varð þeirrar heppni aðnjótandi síðastliðið vor að komast í kynni við samtökin Höndina sem veita einmitt sálrænan stuðning, m.a. með vikulegum fundum þar sem fólk deilir líðan sinni og baráttu við lífið og það sem það hefur upp á að bjóða.

Höndin er mannræktarsamtök sem stofnuð voru fyrir tíu árum og eru alhliða mannúðar- og mannræktarsamtök. Leitast samtökin við að skapa fólki vettvang til sjálfstyrkingar og samhjálpar. Höndin aðstoðar og liðsinnir hinum þurfandi og styður þá sem til samtakanna leita. Margir eiga erfitt uppdráttar eftir áföll og hjálpar Höndin fólki í slíkum aðstæðum og er farvegur fólks í átt til þátttöku í samfélaginu, bæði hvað varðar félagslega færni og atvinnuþátttöku. Kjörorð Handarinnar er: Hver og einn skiptir máli – allir með.

Samtökin bjóða upp á heimsóknir til eldra fólks og þeirra sem eru einmana. Höndin býður upp á fjárhagsstuðning, einstaklingsviðtöl, símaþjónustu, heimsóknir, kynningar á geðheilbrigði, ráðgjöf, málþing og margt fleira. Félagið starfar einnig í sérstökum hópum, þar sem fólk tekur höndum saman, bæði gefur og þiggur til að byggja sig upp og styrkja aðra.

Einn liður í því starfi er að samtökin halda vikulega fundi í Áskirkju með það fyrir augum að styrkja fólk til sjálfstæðis og þátttöku í samfélaginu. Fundirnir eru fyrir alla sem vilja leita sér aðstoðar og vinna í sínum málum, styrkja sig og sitt eigið sjálf – fyrir þá sem eiga eða hafa átt við geðraskanir að etja, svo sem þunglyndi, kvíða og geðhvörf. Einnig er þetta vettvangur fyrir þá sem eru einmana, eru að kljást við sorg eða missi. Síðast en ekki síst fyrir þá sem vilja láta gott af sér leiða og hjálpa öðrum í vanda.

Ná árangri

Einu sinni í viku hittast síðan nokkrir félagar og ganga hressilega um Elliðaárdalinn og er þátttaka yfirleitt mjög góð. Markmiðið er alltaf að hjálpa fólki að greina vanda sinn og finna eigin styrk og getu. Enda eru hlustun, samúð, hlýja og virðing grundvöllur starfsins.

Hafa samtökin m.a. valið fyrirtæki ársins sem styðja við markmiðið um styrkingu og sjálfseflingu en einnig einstaklinga ársins. Einnig standa samtökin fyrir málþingum og hafa nokkur verið haldin. Er þá völdum gestum boðið að halda erindi um starf sitt eða líf með áherslu á sjálfsstyrkingu og árangursríka baráttu við áföll. Hefur ennfremur verið fjallað um tiltekin vandamál eins og kvíða, sem og starf annarra að mannrækt einkum hér á höfuðborgarsvæðinu og hefur aðsókn stundum verið mjög mikil.

Bæði notendur þeirrar þjónustu sem Höndin veitir og fólk sem sjálft sinnir geðmálum hafa hrósað starfi Handarinnar fyrir að ná árangri þegar öll sund virtust lokuð hjá þeim sem kljást við áföll eða þurfa af öðrum ástæðum á hjálp að halda við að rísa aftur til sjálfstæðs lífs, má sem dæmi nefna fulltrúa notenda geðsviðs Landspítalans og aðra skjólstæðinga en þessu fólki ber saman um að þjónustan sé til fyrirmyndar og að heimsóknir til hinna þurfandi og einmana gegni gríðarmiklu hlutverki í lífi þeirra.

Ég er afar feginn að hafa komist í kynni við Höndina sem á ríkan þátt í að hjálpa mér að ná andlegu jafnvægi á ný og hlakka ég til að geta endurgoldið það með því að gefa af mér á þeim vettvangi.




Skoðun

Sjá meira


×