Skoðun

Deilan um keisarans skegg

Sigurður Bárðarson skrifar
Undanfarna daga, eins og svo oft áður, hefur spunnist umræða hér í Fréttablaðinu um það hvort Guð sé til eða ekki til. Og sýnist sitt hverjum.

Frá mínu sjónarhorni er mikill munur á andlegri og huglægri trú.

Við getum spurt hvort veröldin og tilveran með öllum sínum undrum sé raunveruleg eða bara blekking.

Ef við svörum því játandi að hún sé raunveruleg, getum við kallað það Guð og þar með trúað á Guð. Við getum líka svarað spurningunni játandi og sagt að það sem við upplifum sé raunverulegt en að það sé ekki Guð. Svo er endalaust hægt að takast á um það hvort Guð sé til eða ekki.

Ég var eitt sinn spurður hvort ég væri trúaður. Ég svaraði því til að það væri eiginlega ekki hægt að svara þessari spurningu vegna þess að spyrjandinn hefði ákveðnar hugmyndir um hvað það væri að vera trúaður og ef ég svaraði spurningunni játandi þá sæi hann fyrir sér að ég væri trúaður á þann hátt sem ég væri kannski ekki.

Frá mínu sjónarhorni er „Guð“, við getum kallað það alheimsorku, æðri mátt, streymi lífsins eða hvað sem við viljum, eitthvað óafmarkanlegt og óskilgreinanlegt. Og þar komum við að kjarna þessarar endalausu deilu. „Trúleysinginn“ þarf fyrst að skilgreina Guð fyrir sjálfum sér áður en hann segist ekki trúa á hann. Sem sagt, fyrst skilgreinir hann Guð og trúir svo ekki á skilgreiningu sína. Það sama á við um hinn „trúaða“. Hann trúir á sína eigin skilgreiningu á Guði.

Átakaþættirnir

Átakaþættirnir í deilu bókstafstrúar og bókstafsvantrúar eru sinn hvor endinn á sömu spýtunni (trúarbragðaspýtunni).

Hrein „trú“ er, að mínu mati, andleg upplifun og afar frábrugðin þeirri huglægu skilgreiningu sem trúarbrögðin eða „trúleysið“ eru svo rækilega flækt í. Að trúa á huglæga afmörkun er innræting sem takmarkar vitund einstaklingsins og hindrar upplifun andans. Andinn stendur utan við átök og rökræðu.

Trúarbrögð hafa að miklu leyti þróast yfir í huglægrar skilgreiningar á boðskap andlegra leiðtoga. Kristur var ekki kristinnar trúar, Búdda var ekki Búddatrúar og Múhameð ekki Múhameðstrúar. Vandamálið við trúarbrögðin er að þau hafa að miklu leyti færst frá andlegri vakningu meistaranna yfir í huglæga túlkun á boðskap þeirra.

Ástæða þess að fólk laðast að boðskap andlegra meistara er að því líður vel með hann. Ekki huglægt heldur andlega og þar er mikill munur á. Sönn upplifun á kærleika, lotningu og þakklæti er andleg og hefur ekkert með hugsun, skilgreiningu eða trúarbrögð að gera. Hún færir fólki vellíðan og þarf ekki að heita neitt.

Um þessar mundir á sér stað mikil andleg vakning. Fólk stígur nú í auknum mæli út fyrir takmarkanir trúarbragða, afmarkanir þeirra og veraldlegar fyrirskipanir og upplifir milliliðalaust, vegna hugleiðslu, yoga eða annarrar árangursríkrar andlegrar iðkunar, kærleika, einingu og fögnuð sem hvorki þarf að afmarka, skilgreina eða gefa nafn.

„Leitið og þér munuð finna.“


Tengdar fréttir

Um draum um straum, byggðajafnrétti eða sjálfstæði

Árið 1984 var vinnu við hringtengingu háspennulínu í kringum landið lokið. Við sama tækifæri sagði þáverandi forsætisráðherra að næsta verkefni væri að koma Vestfjörðum í hringsamband. Gott ef hann nefndi ekki mögulega atvinnuuppbyggingu í leiðinni sem því myndi fylgja. Svo leið tíminn. Fólkið beið og tíminn leið.




Skoðun

Sjá meira


×