Skoðun

Aðgengi og afleiðingar

Sigurður Jónsson skrifar
Hvernig stendur á því að mér dettur stundum í hug hugtakið „einveldi“ þegar ég les blaðagreinar þeirra manna sem berja sig utan með orðum í vandlætingu á frumvarpi um það skilyrta verslunarfrelsi varðandi sölu á áfengi sem nú liggur fyrir Alþingi? Megin röksemd þeirra er jafnan tilvísun í stundum óljósar, en líka ákveðnar skýrslur eða rannsóknir, sem sýni og sanni að aukið aðgengi að áfengi valdi stóraukinni neyslu þess með ótal vandamálum sem því fylgi. Nú efast ég ekki um það eitt augnablik að slíkar skýrslur séu til enda með ólíkindum hvílík ógrynni ritmáls renna undan rifjum þeirra stofnana sem til þess eru kjörnar að vinna að ákveðnum málefnum, t.d. heilbrigðismálum.

Gott og vel – gefum okkur að þetta sé reyndin og vissulega er ekki deilt um það, að áfengi getur valdið einstaklingum og fjölskyldum þeirra skaða þó að flestir umgangist það án þeirra afleiðinga. Samfélagið ber í þessum tilfellum vissulega skaða umfram þann hagnað sem kaup þessara aðila á áfengi færa ríkissjóði eins og í tilfelli Íslendinga. En það er að sjálfsögðu alveg galin nálgun að miða stefnumörkun um áfengisverslun við lægsta samnefnara því flestir neytendur áfengis njóta þess með eðlilegum hætti og valda ekki umræddum skaða sér eða öðrum.

Þreytandi síbylja

Þessi síbylja um aðgengi = áfengisböl er þreytandi og ekki sæmandi sæmilega viti bornum einstaklingum sem þó viðhafa hana stundum. Allt aðgengi almennings hefur sömu annmarka ef grannt er skoðað. Lágur þröskuldur við öflun ökuréttinda, auðveld bifreiðakaup að ekki sé minnst á reiðhjól og aðrar rennitíkur veldur auðvitað fjölda slysa með eftirfylgjandi skaða fyrir samfélagið. Aðgengi að skotvopnum og skotfærum getur á sama hátt átt þátt í skaða á fólki og kostnaði fyrir samfélagið. Minnumst ekki á íþróttirnar. Það er stórhættulegt að ferðast – ekki síst nú um stundir – til ákveðinna landa eða svæða þar sem órói ríkir og vissulega veldur aðgengi almennings að slíkum ferðum stundum skaða. Ef við ætlum að koma í veg fyrir allt slíkt þurfum við að vefja fólk inn í bómull – að koma í veg fyrir aðgengi.

Ég held stundum að verið sé að óska eftir áðurnefndu einveldi en ekki lýðræðisþróun þegar hæst lætur vaðallinn um hættu á aðgengi að áfengi. Að einhver einvaldur, en ekki fólkið í landinu eigi að ákveða hvað sé gott og rétt fyrir almenning.

En þegar vandlega er farið yfir allt þetta aðgengi og þann skaða sem það veldur einstaklingum og samfélagi þá er niðurstaðan sem betur fer ætíð sú, að þar sé um að ræða mikinn minnihluta almennings. Sanngjarnt fólk getur ekki samsinnt því að rétt sé að miða aðgengi við þennan fámenna hóp en hirða ekki um meirihlutann og aðgengi hans að lögmætri verslunarvöru.

Ber ég von í brjósti um upplýstari umræðu og aukna mannvirðingu? Vissulega – en þó skil ég betur nú en þegar ég las ungur í skóla orð Prússakeisara um ást hans á rakkanum umfram mennina.




Skoðun

Sjá meira


×