Skoðun

Um kirkjuferðir barna

Jakob Ágúst Hjálmarsson skrifar
Athugasemd til Halldórs Auðar Svanssonar Fbl. 11.12.

Mig langar til að benda þér á aðra nálgun viðfangsefnisins sem mér finnst vera í senn lýðræðislegri og frjálslegri en sú sem Píratar fylgja. Ástæðan er sú að mér sýnist sú leið lenda í ógöngum sem á að forða fólki frá þeim óþægindum að þurfa að velja í jafn viðkvæmum málum sem trúarefnum.

Nú er það aldrei nema satt að fátt skilgreinir samfélagshópa meir en trúarbrögð. Þau skapa grunn að almennum viðhorfum. Þess vegna sýnast svo mörg átök í heiminum vera á milli trúarsamfélaga þegar þau eru í raun hagsmunabarátta menningarheilda. Við þurfum því allra mest á umburðarlyndi að halda, þurfum öll að læra það og ættum að álíta það eðlilegt að þjóðfélagshópar séu á ýmsan hátt ólíkir og eigi rétt á sínu félagslífi svo fremi sem það meiðir engan. Baráttan fyrir jöfnuði helst svo í hendur við þetta og stefnir að sömu tækifærum fyrir alla.

Þetta verður fyrst að kenna í skólanum og það verður ekki gert með því að fela fjölbreytnina. Nær er að hampa henni og hylla ólíka menningartjáningu. Jólahald í okkar menningu er aðeins kristið. Vissulega er mönnum frjálst að nota orðið eins og það vill, en við erum að tala um Kristsmessu sem á sér djúpar rætur í samfélaginu og menningu þjóðarinnar. Við gerum engum greiða með því að reyna að afhelga hana, búa til einhverja útþynnta súpu sem allir geti etið og jólasveinajól Þjóðminjasafnsins eru ekkert hlutlausari í sjálfu sér en litlujólin í kirkjunni.

Þeir fari í kirkju sem vilja

Náttúrujólin, vetrarsólhvörfin eru einu hlutlausu jólin í raun og bæra streng í hverju hjarta. Dagamun geta menn gert sér hvenær sem er og ekki óeðlilegt að trúlaust fólk noti jólin til þess þar sem almennir frídagar bjóða upp á það. En skólinn, skólayfirvöld og stjórnvöld ættu að hylla fjölmenninguna og einnig með þeim hætti að gefa kristnum rúm fyrir sitt jólahald og öðrum trúarhópum fyrir sínar hátíðir, hvort sem þeir eru margir eða fáir. Kennum börnunum að bera virðingu fyrir og telja hið sjálfsagðasta mál að það hafi ekki allir sömu hátíðir, hátíðasiði og menningartjáningu yfirleitt – og það sé bara fínt.

Þannig fara þeir í kirkjuferð sem það vilja, aðrir láta það vera en fara í staðinn eitthvað annað, jafnvel á öðrum tíma árs. Sumir fara ekki neitt. Valið þarf þá ekki að vera nein kvöl, heldur eðlileg hegðun menningarheildar hvort hún er stór eða smá. Þjóðkirkjan þarf þá heldur ekki að vera tekin fyrir sérstaklega né á hana eytt svo mörgum orðum sem þú virðist hafa þurft að gera í grein þinni.

Ef við leyfum frjálsræðinu og fjölbreytninni að ríkja lendum við síst í vandræðum, en þegar við ætlum að fara að stjórna svona hegðun með tilskipunum lendum við í vanda og af því er raunar kunnuglegt óbragð sem kirkjan fyrir sitt leyti vill öllum fremur venja sig af.




Skoðun

Sjá meira


×