Handbolti

HSV í greiðslustöðvun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Framtíðin er ekki björt hjá Hamburg þessa dagana.
Framtíðin er ekki björt hjá Hamburg þessa dagana. Vísir/Getty
Þýska handboltafélagið HSV Hamburg er komið í greiðslustöðvun að sögn þýskra fjölmiðla en félagið hefur ekki tekist að leysa fjárhagsvandræði sín síðastliðin ár.

Litlu mátti mun að liðið yrði lýst gjaldþrota árið 2014 eftir að forsetinn Andreas Rudolph steig til hliðar en hann hefur undanfarin ár séð til þess að félagið hefur haldið sér á floti.

Rudolph hefur áfram verið aðalstyrktaraðili félagsins en ljóst er að hann mun ekki koma til bjargar að þessu sinni. Samkvæmt þýskum fjölmiðlum er þó vonast til að annar fjársterkur aðili komi að málum nú. Sá heitir Jürgen Hunke og er fyrrum forseti knattspyrnufélagsins HSV.

Talið er að skuldir Hamburg HSV nemi samtals fimm milljónum evra. Leikmenn eiga inni tveggja mánaða laun og starfsmenn einn mánuð. Félagið skuldar leigu og er óvíst að félaginu verði hleypt inn í Barclaycard Arena (áður O2 World Hamburg) til að spila við Magdeburg um helgina.

Félagið vill þó halda liði sínu úti eins lengi og mögulegt er en óvíst er hvað gerist næstu daga og vikur. Liðið er sem stendur í fimmta sæti þýsku úrvalsdeildarinnar en átta stig verða dregin af liðinu vegna greiðslustöðuninnar. Liðið mun samkvæmt því falla niður í tólfta sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×