Skoðun

Bjóðum flóttafólk velkomið til Akureyrar

Lilja Björk Ómarsdóttir skrifar
Samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna voru ríflega 51,2 milljónir manna á flótta árið 2013. Þá hafði þeim fjölgað um sex milljónir frá árinu þar á undan. Eins og mikið hefur verið rætt um í fréttum bæði hér og annars staðar í heiminum er mikið um flóttafólk sem leitar sér að nýjum samastað.

Akureyrarbær hefur tekið ákvörðun um að taka á móti flóttamönnum og var fyrsti bærinn á Íslandi til að senda frá sér formlegt bréf til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna til að bjóða fram aðstoð. Akureyri er stórt bæjarfélag og ef allir hjálpast að ætti ekki að vera mikið mál fyrir þetta fólk að koma sér vel fyrir og eignast eins eðlilegt líf og kostur er. Það sem flóttafólk óskar helst eftir er öryggi, húsnæði og flestir vilja vera sjálfstæðir og hafa atvinnu þar sem hælisleitendur búa oft við mikla félagslega einangrun og eru undir miklu andlegu álagi.

Það er ýmislegt sem við á Akureyri getum gert til þess að aðstoða þetta fólk. Til dæmis væri hægt að byrja á því að kynna þau fyrir bænum okkar, kenna þeim tungumálið og veita þeim þann stuðning sem þau þurfa. Rauði krossinn er með mjög góða starfsemi þegar kemur að flóttamönnum og veitir þeim stuðning og félagsskap.

Til þess að hjálpa þessu fólki að kynnast okkur og okkar tungumáli þá er mikilvægt fyrir það að fá grunnkennslu í íslensku. En ég held að það sé samt best fyrir krakka á grunnskóla- og leikskólaaldri að komast sem fyrst inn í skólakerfið því þeir læra best af því að vera með krökkum á svipuðum aldri. Mér finnst líka sniðugt að búa til hópa af sjálfboðaliðum sem hittir fólkið og veitir því félagslegan stuðning og þannig lærir það kannski betur íslenskuna. Þetta fólk þurfti að flýja heimili sín út af stríðsástandinu sem er í Sýrlandi og á því ekki neitt nema kannski föt til skiptana.

Hvað getum við gert til að aðstoða flóttafólk við að koma sér fyrir í okkar samfélagi til að geta lifað sem eðlilegustu lífi? Við gætum til dæmis tekið okkur saman með því að búa til síðu til að safna fötum, húsgögnum og öðru sem fólk þarf til heimilishalds. Þá gætu íbúar á Akureyri skráð sig inn á þessa síðu ef þeir hafa eitthvað að gefa til þessa hóps.

Það hlýtur að vera erfitt fyrir þetta fólk að þurfa að flýja heimili sitt og hvað þá landið sitt þar sem það hefur jafnvel búið allt sitt líf og fara til ókunnugs lands. Í þessu nýja landi þarf það að læra margt upp á nýtt og koma undir sig fótunum frá grunni þar sem það hefur misst allt sitt. Það að veita flóttamönnum aðstoð og bjóða þau velkomin í bæinn okkar gerir okkur að betra fólki og kennir okkur að bera virðingu fyrir náunganum. Ef við stöndum saman og hjálpumst að getum við gert flóttamönnum lífið svo miklu auðveldara.

Heimildaskrá

https://www.ruv.is/frett/akureyri-tekur-fyrst-a-moti-flottamonnum

http://www.raudikrossinn.is/page/rki hvad haelisleitendur fjoldiflottamanna

http://www.raudikrossinn.is/page/rki hvad haelisleitendur




Skoðun

Sjá meira


×