Handbolti

Sjáðu magnaða stoðsendingu Björgvins Páls í sigurmarki Bergischer

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson kórónaði stórleik sinn með því að gefa stoðsendinguna í sigurmarki Bergischer á Lemgo í leik liðanna í þýsku úrvalsdeildinni um helgina.

Björgvin Páll byrjaði leikinn af miklum krafti og varði til að mynda tvö vítaköst snemma í leiknum. En þrátt fyrir magnaða frammistöðu hans í fyrri hálfleik náði Lemgo að halda í við Bergischer, sem hafði eins marks forystu í hálfleik, 15-14.

Bergischer náði fimm marka forystu þegar tíu mínútur voru til leiksloka en Lemgo kom til baka og jafnaði metin fjórum sekúndum fyrir leikslok, 30-30.

Lemgo hafði tekið markvörðinn sinn af velli til að fjölga í sókninni. Björgvin Páll var fljótur að átta sig á því, hirti boltann úr markinu og kom honum fram á Maximilian Weiss sem skoraði í autt markið, rétt áður en leiktíminn rann út.

„Stemningin var ótrúleg og sigurinn í dag segir mikið um liðið,“ sagði Björgvin Páll eftir leikinn en eins og gefur að skilja brutust gríðarleg fagnaðarlæti út eftir að sigurinn var í höfn. „Ég hef aldrei upplifað annan einn sigur.“

Bergischer er í fimmtánda sæti þýsku deildarinnar en sigurinn á Lemgo var sá fyrsti hjá liðinu í deildinni síðan um miðjan september.

Myndbandið má sjá hér eða í spilaranum efst í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×