Handbolti

Geir rekinn frá Magdeburg

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Geir Sveinsson.
Geir Sveinsson. Vísir/Getty
Geir Sveinssyni hefur verið sagt upp starfi sínu sem þjálfari þýska úrvalsdeildarliðsins Magdeburg en það staðfesti félagið á heimasíðu sinni í dag.

Geir hefur nú þegar hætt störfum hjá félaginu og munu þeir Bennet Wiegert, sem þjálfar unglingalið félagsins, og markvarðaþjálfarinn Tomas Svenssson taka tímabundið við þjálfun liðsins.

Geir tók við þjálfun Magdeburg sumarið 2014 og náði frábærum árangri á sínu fyrsta tímabili. Hann kom liðinu í úrslit þýsku bikarkeppninnar, þar sem Magdeburg tapaði í vítakeppni, og kom því í Evrópukeppni með því að ná fjórða sæti deildarinnar.

Forráðamenn Magdeburg ákváðu þá að gefa honum nýjan samning og samdi Geir við liðið til 2017 í júní síðastliðnum.

Sjá einnig: Geir verðlaunaður með nýjum samningi

En liðið hefur ekki náð að fylgja eftir góðum árangri í haust og er liðið nú í ellefta sæti deildarinnar. Magdeburg tapaði á heimavelli fyrir Göppingen á laugardaginn, 32-24, sem gerði útslagið.

Sjá einnig: Lærisveinar Geirs skotnir í kaf

Magdeburg mætir Göppingen á nýjan leik annað kvöld en þá í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar. Félagið hefur boðað til blaðamannafundar í hádeginu vegna þjálfaraskiptanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×