Handbolti

Svartfellingar og Rússar síðastir til að tryggja sig inn í 8-liða úrslitin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jovanka Radicevic var markahæst í liði Svartfellinga gegn Angóla.
Jovanka Radicevic var markahæst í liði Svartfellinga gegn Angóla. vísir/getty
Nú er ljóst hvaða lið eru komin áfram í 8-liða úrslit á HM kvenna í handbolta en síðustu tveir leikirnir í 16-liða úrslitunum fóru fram í kvöld.

Svartfjallaland átti ekki í miklum vandræðum með að leggja Angóla að velli í Herning. Lokatölur 38-28, Svartfellingum í vil.

Sigurinn var aldrei í hættu en eftir átta mínútna leik var staðan orðin 8-1. Sex mörkum munaði á liðunum í hálfleik, 19-13. Mestur varð munurinn 12 mörk en á endanum skildu 10 mörk liðin að, 38-28.

Jovanka Radicevic var markahæst í liði Svartfjallalands með níu mörk en Majda Mehmedovic kom næst með sjö.

Natalia Bernardo og Azenaide Carlos stóðu upp úr hjá  Angóla en þær skoruðu samtals 19 af 28 mörkum liðsins.

Í Kolding báru Rússar sigurorð af Suður-Kóreu, 30-25.

Olga Akopian var markahæst hjá Rússlandi með sex mörk en liðið hefur unnið alla sex leiki sína á HM.

Rússar leiddu allan leikinn, fyrir utan upphafsmínúturnar, en þremur mörkum munaði á liðunum í hálfleik, 16-13.

Rússland gerði svo út um leikinn með 10-3 kafla í byrjun seinni hálfleiks. Lokatölur 30-25, Rússlandi í vil.

Þessi lið mætast í 8-liða úrslitunum:

Holland - Frakkland

Pólland - Rússland

Noregur - Svartfjallaland

Danmörk - Rúmenía


Tengdar fréttir

Frakkar og Pólverjar komnir áfram

Frakkland og Pólland bættust í dag í hóp þeirra liða sem eru komin áfram í átta-liða úrslit á HM í handbolta í Danmörku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×