Skoðun

Hvert er okkar hlutverk?

Inga María Árnadóttir skrifar
Niðurstaða dómsins í máli ákærðs hjúkrunarfræðings eru mikil gleðitíðindi. Við viljum ekki búa í samfélagi þar sem starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar forðast að tilkynna atvik af ótta við að það geti komið niður á starfi þeirra eða samstarfsfélaga. Við tilkynnum atvik til þess að læra af þeim og koma í veg fyrir að slíkt geti komið fyrir aftur.

Í kjölfar atburðarins sem leiddi til ákærunnar fór strax af stað nefnd sem tók málið fyrir og ýmsum verkfallsreglum og starfsháttum var breytt fyrir vikið. Í kjölfar. Heilbrigðisráðherra skipaði starfshóp til að móta tillögur um verklag í tengslum við tilkynningar og rannsókn óvæntra dauðsfalla sem hægt væri að rekja til mistaka, vanrækslu eða óhapps í meðferð sjúklings. Kröftuglega var brugðist við til þess að auka gæði og öryggi þjónustunnar.

Eftir þennan dómsúrskuð er ég viss um að heilbrigðisstarfsmenn eru orðnir meðvitaðri um mikilvægi þess að tilkynna atvik til þess að læra af þeim. Það er jákvætt. En, það má ekki verða undir í umræðunni hvar raunveruleg ábyrgð hjúkrunarfræðinga og annars heilbirgðisstarfsfólks liggur. Er það ljóst eftir þennan dómsúrskurð? Ef hjúkrunarfræðingur ber ekki ábyrgð á því sem hann framkvæmir, hver gerir það þá?

Aðalatriðið er ekki að finna einstakling eða stofnun til þess að klína ábyrgðinni á. Það skilar ekki árangri. Það sem skiptir mestu máli er að starfsfólkið sé ávallt meðvitað um hvar ábyrgð þeirra liggur hverju sinni. Koma þarf í veg fyrir aðstæður sem geta valdið því að heilbrigðisstarfsfólk verði óvisst eða ómeðvitað um ábyrgðina sem það ber.

Þar sem ég er ennþá „bara nemi“ verð ég að slengja því fram að ábyrgð hjúkrunarema í starfi er með öllu óskýr. Ef við teljum okkur ekki kunna að framkvæma ákveðið verk eða hafa næga þekkingu til þess að hafa yfirsýn yfir öll þau flóknu heilbrigðisvandamál sem sjúklingar geta haft, þá leitum við okkur aðstoðar. En ef við teljum okkur vera fær í verkið er eftirlit með okkur lítið sem ekkert. Okkur er treyst. Jafnvel þó að við gerum okkur ekki fyllilega grein fyrir umfangi málsins. Okkar sjálfsmat á eigin getu gildir.

Í upphafi vaktar næ ég mér í blað og skrifa niður innlagnarásæðu, sjúkdómsgreiningar (ef þær liggja fyrir) og meðferðir þeirra sjúklinga sem ég mun koma til með að sinna á vaktinni. Ég geri tékklista fyrir þau verk sem ég ætla að framkvæma og svo notast ég við þennan tossalista út vaktina til þess að gleyma engu. En hvað ef mér yfirsást eitthvað við gerð listans? Hvað ef ég hef ekki næga þekkingu eða hreinlega gleymdi að setja eitthvað niður á blað. Hvar er öryggisventillinn þá?

Heilbrigðisstarfsfólk þarf að vera þjálfað í starfsháttum sem stuðla að sem mestu öryggi. Við erum öll mannleg og við getum öll gert mistök í starfi en mistök í heilbrigðisþjónustu geta haft hörmulegar afleiðingar og jafnvel valdið dauða. Að sjálfsögðu vill enginn gera mistök við slíkar aðstæður. Lögmál Murphys gengur út á það að ef eitthvað getur farið úrskeiðis þá mun það á endanum gerast. Því þarf að koma á öflugari öryggisventli. Það er með öllu óásættanlegt að ekki skuli vera lögð meiri áhersla á öryggismenningu inni á stofnun sem sérhæfir sig í að veita þjónustu sem miðar að því að bæta lífsgæði og lengja líf.

Vonandi verður lögð meiri áhersla á öryggismenningu í kjölfar atviksins sem leiddi til ákærunnar á hendur hjúkrunarfræðingnum en orsakir atvika eru í flestum tilvikum vegna ágalla í skipulagi en ekki sök einstaklinganna sem vinna verkið. Heilbrigðiskerfið er í viðbragðsstöðu þar sem tekið er á málunum þegar og eftir að þau koma upp. Til þess að stuðla að raunverulegum breytingum er varða öryggi þarf að horfa fram í tímann, sýna framsækni í starfi og vera ávallt á varðbergi.

Áhættustjórnun þarf að vera samofin öllu því sem gert er. Annars þarf alltaf nýtt og nýtt atvik til. Á meðan erum við öll í hættu.

Inga María Árnadóttir,

Hagsmunafulltrúi hjúkrunarfræðinema við Háskóla Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×