Handbolti

Þrír sigrar í röð hjá stelpunum hans Þóris | Úrslitin á HM kvenna í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nora Mörk lék vel í kvöld.
Nora Mörk lék vel í kvöld. Vísir/Getty
Norska kvennalandsliðið hélt sigurgöngu sinni áfram á heimsmeistaramóti kvenna í handbolta í kvöld þegar liðið vann fjögurra marka sigur á Rúmeníu.

Norsku stelpurnar, sem spila undir stjórn Íslendingsins Þóris Hergeirssonar, töpuðu með einu marki á móti Rússlandi í fyrsta leik mótsins en hafa síðan unnið þrjá leiki í röð.

Nora Mörk skoraði sjö mörk úr tíu skotum og var markahæst í norska liðinu en Veronika Kristiansen skoraði sex mörk og Stine Oftedal var með fimm mörk.

Norska liðið komst í 7-2 í upphafi leiks og var 13-10 yfir í hálfleik. Norsku stelpurnar byrjuðu seinni hálfleikinn líka mjög vel og voru átta mörkum yfir, 20-12, þegar 18 mínútur voru eftir.

Rúmenska liðið skoraði fjögur mörk í röð og minnkaði muninn í 23-19 þegar sex mínútur voru eftir og minnstur var munurinn þrjú mörk á lokakaflanum. Sigur norska liðsins var þó aldrei í mikilli hættu.

Rússland og Spánn eru bæði fyrir ofan norska liðið eftir stórsigra í sínum leikjum og hafa Rússar þegar tryggt sér sigur í riðlinum.

Noregur og Spánn eru komin áfram í sextán liða úrslitin en spila úrslitaleik um annað sætið á morgun.

Frakkland og Brasilía eru efst og jöfn með sjö stig í C-riðli en þau spila hreinan úrslitaleik um sigurinn í riðlinum í lokaumferðinni.

Þýsku stelpurnar eru komnar upp í þriðja sæti riðilsins eftir sigur á Suður Kóreu í dag.



Úrslit á HM kvenna í handbolta í dag:

C-riðill

Argentína - Brasilía 19-23

Frakkland - Kongó 29-16

Þýskaland - Suður Kórea 40-28

Stig liða

Frakkland 7

Brasilía 7

Þýskaland 4

Suður Kórea 4

Argentína 2

Kongó 0



D-riðill

Kasakstan - Rússland 19-42

Spánn - Púertó Ríkó 39-13

Rúmenía - Noregur 22-26

Stig liða

Rússland 8

Spánn 6

Noregur 6

Rúmenía 4

Kasakstan 0

Púertó Ríkó 0




Fleiri fréttir

Sjá meira


×