Skoðun

Yfirlýsing frá Halldóri Lúðvígssyni

Halldór B. Lúðvígsson skrifar
Kópavogur 10. desember 2015

Í kjölfar umfjöllunar fjölmiðla um ásakanir Hreiðars Más Sigurðssonar í minn garð vil ég koma eftirfarandi á framfæri. 

Ég seldi aldrei hlutabréf í Exista. Ég keypti bréf í Exista í hlutafjárútboði sem var haldið í tengslum við skráningu félagsins á hlutabréfamarkað á árinu 2006. Þau hlutabréf átti ég enn þegar bréf félagsins voru tekin úr viðskiptum á árinu 2010 í tengslum við nauðasamninga félagsins. Ég tapaði því þeim peningum sem ég hafði fjárfest í Exista líkt og aðrir fjárfestar. 

Hvað varðar sölu mína á bréfum í Kaupþingi nokkrum dögum eftir þjóðnýtingu Glitnis, þá byggði sú sala einungis á þeirri forsendu að við þjóðnýtingu Glitnis væri um gjörbreytt landslag að ræða á íslenskum fjármálamarkaði. Ákvörðun um þá sölu byggði ekki á neinum innherjaupplýsingum, enda var ég almennur starfsmaður í Kaupþingi með engan aðgang að innherjaupplýsingum. 

Eins og fram hefur komið sendi Hreiðar Már bréf á árinu 2011 til ýmissa aðila þar sem vakin var athygli á sölu minni á þessum hlutabréfum. Í kjölfar þessa bréfs fékk ég fyrirspurn frá FME um málið. Eftir að ég hafði svarað þeirri fyrirspurn taldi FME mig ekki hafa búið yfir innherjaupplýsingum og taldi ekki tilefni til frekari athugunar. Ég lít svo á að með þeirri ákvörðun hafi FME staðfest að umrædd sala hafi verið eðlileg og hafi þar með hreinsað mig af þessum ásökunum. 

Að gefnu tilefni vil ég að lokum ítreka það sem áður hefur komið fram og verið staðfest af embætti sérstaks saksóknara. Engir samningar hafa verið gerðir milli mín og embættis sérstaks saksóknara um að fallið verði frá málsókn á hendur mér gegn því að ég beri vitni. Á öllum stigum málsins hef ég einvörðungu, eins og mér ber skylda til, svarað spurningum embættisins eftir bestu getu. 

Virðingarfyllst Halldór B. Lúðvígsson


Tengdar fréttir




Skoðun

Sjá meira


×