Erlent

Greiða milljarð í bætur vegna vændiskvenna

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Fumio Kishida (t.v) og Yun Byung-se handsala samkomulagið.
Fumio Kishida (t.v) og Yun Byung-se handsala samkomulagið.
Japan og Suður-Kórea hafa komist að samkomulagi um bætur vegna suðurkóreskra portkvenna sem neyddar voru til að starfa á japönskum vændishúsum í síðari heimstyrjöldinni. Þetta kemur fram á vef BBC.

Samkomulagið felur í sér að Japan greiðir einn milljarð jena, tæplega 1,1 milljarð íslenskra króna, í sjóð sem síðan mun úthluta fénu til fórnarlamba. Sambærilegum sjóð var komið á fót árið 1995 en sá var kostaður af einkaaðilum en ekki japanska ríkinu.

Vændiskvennadeilan hefur staðið yfir frá lokum stríðs en þetta er fyrsta samkonulagið sem næst í henni í hálfa öld. Fumio Kishida, utanríkisráðherra Japan, og Yun Byung-se, suðurkóreskur starfsbróðir hans, sættust fyrir hönd þjóðanna í Seúl í dag.

„Forsætisráðherrann vill koma á framfæri einlægri afsökunarbeiðni til allra þeirra sem þjáðust og fengu ör, bæði á sál og líkama, sem seint munu gróa, ef einhvern tímann,“ sagði Kishida við undirritunina en Shinzo Abe, forsætisráðherra landsins, var ekki viðstaddur.

Yfir 200.000 konur voru neyddar til kynlífsþrælkunar af Japönum á meðan síðara stríðið stóð yfir. Stærstur hluti þeirra var frá Kóreu en 46 slíkar eru enn á lífi. Margar þeirra voru frá Kína, Indónesíu, Filippseyjum, Indónesíu og Taívan. Japanir eru þekktir fyrir grimmdarverk sín í stríðinu og nægir að nefna slátrunina í Nanjing.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×